Skýrsla stjórnar 2007

HOLLVINIR GRENSÁSDEILDAR
(Kennitala: 670406-1210 – Númer bankareiknings: 311-26-6704)

AÐALFUNDUR 30. MAÍ 2007 – SKÝRSLA STJÓRNAR

HeilaheillSamtökin Hollvinir Grensásdeildar voru stofnuð 5. apríl 2006 og er þetta því fyrsta skýrsla fyrstu stjórnar félagsins. Eftir stofnfundinn skipti stjórnin þannig með sér verkum: Formaður, Gunnar Finnsson, varaformaður, Þórir Steingrímsson; ritari, Sigmar Þór Óttarsson,; gjaldkeri, Sveinn Jónsson; og meðstjórnandi Anna Geirsdóttir. Varamenn: Ásgeir B. Ellertsson og Baldvin Jónsson. Varamenn hafa setið stjórnarfundi og tekið fullan þátt í störfum stjórnarinnar. Jafnframt hefur stjórnin notið náinnar samvinnu við Stefán Yngvason, sviðsstjóra lækninga á endurhæfingasviði og annað starfsfólk á Grensásdeild. Eins og fram kemur í lögum samtakanna er tilgangur þeirra að styðja við, efla og styrkja endurhæfingarstarfsemi þá, sem fram fer á Grensásdeild Landspítala Háskólasjúkrahúss eða í tengslum við þá starfsemi. Skal það gert með öflun fjár til þeirrar starfsemi og eins með því að vekja athygli á og hvetja til styrktar starfseminnar á opinberum vettvangi. Stjórnin hefur einbeitt sér að nauðsynlegri undirbúningsvinnu í þessu sambandi og greindi frá því þ. 8. desember sl. í fréttabréfi til meðlima samtakanna á hvaða stigi málin stóðu þá. Í framhaldi af því verður rakið hér á eftir það helsta í starfinu. Fram kom á stofnfundinum að eðlilegt væri að leita eftir stuðningi við Grensásdeild til þeirra fyrirtækja, sem beinan ávinning hafa af starfsemi deildarinnar. Leit stjórnin því einkum til tveggja stærstu tryggingafélaga landsins, Sjóvá og VÍS. Viðræður hófust við Sjóvá í fyrrasumar um mögulegan stuðning þeirra, einkum með tilliti til byggingar nýrrar álmu á Grensásdeild, er hýsa mundi sjúkra- og iðjuþjálfun alla þar sem og göngudeild og eins tengda skrifstofuaðstöðu. Sjóvá hefur nú lagt fram hugmynd um að félagið reisi strax nýja álmu fyrir Grensásdeild sem ekki er fyrirhuguð bygging á hjá ríkinu fyrr en eftir 10-15 ár. Þessi viðbótarálma er mjög mikilvæg fyrir Grensás og mundi bæta úr brýnni þörf. Sjóvá er reiðubúið að hafa forystu um að afla styrkja til verkefnisins sem nema tugum milljóna króna og leigja bygginguna LSH á sanngjörnu verði þar til ríkið tæki hana yfir að tilteknum árum liðnum. Afgreiðsla málsins er nú í höndum heilbrigðisyfirvalda. Annað mál, sem unnið hefur verið að, snertir möguleikana er felast í notkun tölva á Grensásdeild. Aðgangur að tölvu ásamt kennsla í notkun hennar mundi örva heilastarfssemi og viðbrögð sjúklinga og ennfremur draga úr andlegri og félagslegri einangrun þeirra en eins og við vitum þarf stór fjöldi sjúklinga að dveljast langdvölum á Grensás Rétt fyrir jólin styrkti Flugfélag Íslands okkur með 250 þúsund króna gjöf og var ákveðið að verja stærstum hluta þeirrar upphæðar til eflingar á fyrrgreindum tölvumálum. Í síðustu viku ákváðu Flugstoðir að gefa þrjár nýjar tölvur með borðum til afnota fyrir sjúklinga á Grensás og eru þá þessi mál í góðum farvegi.Þessi stuðningur Sjóvá, Flugfélags Íslands og Flugstoða er mikið ánægjuefni og ber glöggt vitni um sterka þjóðfélagslega ábyrgð þessara fyrirtækja.

Þá skal geta að það hafa verið útbúin minningarkort Hollvina Grensásdeildar. Grensásdeild ætlar að sjá um móttöku og afgreiðslu beiðna um kort og hefur Sigrún Sigurðardóttir þar boðist til að taka það verk að sér. Þetta er aukavinna fyrir Sigrúnu og kunnum við henni miklar þakkir fyrir. Sími Sigrúnar, sem er við frá kl. 08:00 til 14:00 á virkum dögum, er 543 9327 og netfangið sigrs@landspitali.is. Stefnt er að því að útbúa heimasíðu Hollvina Grensásdeildar en það hefur dregist á langinn og mun væntanlega gera það eitthvað enn því gerð og rekstur heimasíðunnar er kostnaðarsöm. Samtökin Heilaheill hafa boðið okkur aðgang að sinni heimasíðu, www.heilaheill.is uns okkar verður komin upp og höfum við þegið það með þökkum. En ég vildi nota tækifærið nú og varpa fram þeirri spurningu hvort einhver hér hefði áhuga á að koma að gerð og rekstri heimasíðu okkar? Sótt var um styrk til Fjárveitinganefndar Alþingis til að standa straum af kostnaði samtakanna við þau verkefni sem nú eru efst á baugi og þá einkum undirbúningsvinnu við byggingu viðbótarálmunnar við Grensásdeild, og gerð og rekstur heimasíðu. Umsókninni var hafnað. Virkir meðlimir Hollvina Grensásdeildar eru nú tæplega 100. Árgjaldið er 1.000- krónur og ætlar stjórnin að leggja til að það haldist óbreytt. Í sjóði samtakanna eru um 350 þús. krónur. Sveinn, gjaldkeri, mun greina nánar frá fjárhagsstöðunni á eftir.Lög samtakanna mæla svo fyrir að aðalfundur samþykki starfsáætlun komandi árs. Þar leggur stjórnin til að aðaláherslan verði lögð á að hrinda tillögu Sjóvá í framkvæmd. Meðal annara verkefna, sem vinna þarf að er t.d. breyting yfir í sjúkraherbergi á því húsnæði, sem losna mundi ef bygging þjálfunnarálmunnar gengur eftir. Þá er mikil þörf fyrir háþróaðan, tölvuvæddan þjálfunarútbúnað, sem getur aukið árangur og afköst endurhæfingar; einnig má nefna ýmsan annan útbúnað, sem stuðlar að því sama og þar með eru taldir sérhæfðir hjólastólar. Þetta eru eðlilega verkefni, sem munu ekki aðeins ná yfir næsta ár heldur fleiri.Í lokin er svo rétt að rifja upp hvers vegna eigi að styðja við og efla starfsemi Grensásdeildar. Svarið er einfalt, starfsemi deildarinnar er þjóðhagslega séð mjög arðbær. Um 70% allra sjúklinga eru á vinnufærum aldri. Sá hluti þeirra sem hverfur til starfa á ný greiðir með sköttum sínum á örfáum árum rekstrarkostnað Grensásdeildar árið sem þeir dvöldu þar. Þá er ótalinn sá þjóðhagslegi sparnaður sem felst í því að gera fólk sjálfbjarga á ný þó það nái ekki vinnufærni, auk þeirrar sjálfsvirðingar og þeim andlega styrk sem það veitir þeim sem þannig er ástatt fyrir. Síðan deildin tók til starfa 1973 hefur þjóðinni fjölgað um meir en 40% og þeim, sem endurhæfingu þurfa, hefur fjölgað hlutfallslega meir ekki síst vegna þess að nú bjargast fleiri úr slysum en áður. Samt er ekki áætlað að bæta við rými deildarinnar fyrr en eftir vel á annan áratug. Vill þjóðin leiða þetta áfram hjá sér?

Reykjavík, 30. maí 2007

Stjórn Hollvina Grensásdeildar