Sævar Guðjónsson

Sævar Guðjónsson

Það var 17. febrúar 1967 þegar ég var á sjötta aldursárinu að ég var úti að leika mér með vinum mínum aftan við heimili mitt við Laugalæk 34, Reykjavík. Þar var til húsa í útihúsunum við bæinn Bjarg við Sundlaugaveg fyrirtæki sem útbjó stéttarsteina og við vinirnir vorum að klifra í stéttarsteinunum og ég var staddur milli upphlaðinna stéttarsteina og var að hífa mig upp þegar vinstri hliðin gaf eftir og ég komst ekki upp. Mamma var ekki heima þar sem hún var í lagningu því hún og pabbi voru á leið á árshátíð um kvöldið svo vinur minn sótti ömmu sína sem hjálpaði mér heim til þeirra.

Fyrst var talið að ég hafi dottið og meitt mig en þegar mamma kom þá sá hún að eitthvað alvarlegt var að þar sem hún kallaði á mig og ég opnaði augun og þau voru fjarræn og blá og var þá hringt á sjúkrabíl sem flutti mig á Landakotsspítala. Þar var það Bjarni Jónsson sem tók við mér en hann var þáverandi sérfræðingur hér á landi á þessu sviði. Næstu daga á eftir fór ég í ýmsar rannsóknir og framkvæmd var mænustunguaðgerð og fleira. Það kom í ljós að æðaflækja hægra megin í heila hafði gefið sig.

Á þessum tíma voru ekki framkvæmdar heilaskurðaðgerðir á Íslandi þannig að það var flogið með mig út eftir þrjár vikur í venjulegu millilandaflugi til Danmerkur en ég lá í sjúkrabörum í fluginu. Á flugvellinum beið svo sjúkrabifreið sem flutti mig á Ríkisspítalann í Kaupmannahöfn og þar var ég svo skorinn upp og var skurðurinn ein 36 spor (alls ekki eins snyrtilegur og maður sá nokkrum árum síðar á Borgarspítalanum). Danirnir settu silfurklemmur í höfuðið á mér til að loka fyrir æðarnar og þegar teknar eru sneiðmyndir af mér í dag þá sjást bara stjörnur.

Það var ljót sjón sem blasti við foreldrum mínum þegar þau sáu mig fyrst eftir aðgerðina þar sem búið var að setja dren úr sárinu á höfðinu og látið leka niður í litla flösku.

Eftir heimkomuna var ég svo fluttur á Landakotsspítala og var þar í rúma viku.

Eftir heilablæðinguna þá lamaðist ég í vinstri hendi og fæti og fór því í endurhæfingu hjá Styrktarfélagi lamaðra og fatlaðra þar sem ég var nokkrum sinnum í viku bæði þjálfunin þarna og svo það að ég var ungur og alltaf úti að leika mér hefur hjálpað mér mikið að ná þeim bata sem ég hef náð. Það sem háði mér lengi var að ég snéri mig oft á vinstri fæti en upp úr 1970 þegar stoðtækjafyrirtækið Össur kom til sögunnar þá hef ég notað spelkur sem hafa komið mér þangað sem ég hef viljað fara til dæmis á: Esjuna, Hekluna, Rjúpnafellið (hæsta fjallið í Þórsmörk), Laugaveginn (gönguleiðinn milli Landmannalauga og Þórmerkur), Skólavörðurstíginn (gönguleiðinn milli Eldgjár og þórsmerkur) auk fleiri bakpokaferða og fjallgangna.

Eftirminnilegur dagur

Það var 9. júlí 1973 tveimur dögum fyrir tólf ára afmælið mitt að ég var á fótboltaæfingu hjá Ármanni við Sigtún (núverandi Sóltún) í Reykjavík að ég fékk þennan svakalega hausverk þannig að hausinn á mér virtist vera að springa svo ég fékk leyfi til að fara heim en ég bjó þá á Laugalæk 34, Reykjavík. Er ég var kominn langleiðina heim þá hitti ég strák úr hverfinu og bað hann að hlaupa og sækja hjálp en hann hélt að ég væri að plata sig svo ég hélt áfram og byrjaði skömmu síðar að æla og hljóp þá strákurinn heim og sótti mömmu og þegar hún sá mig þá var ég allur orðinn skakkur og haltraði mjög og andlitið skakkt.

Síðan var kallaður til læknir af læknavaktinni og ég fluttur skömmu síðar með sjúkrabíl á Borgarspítalann þar sem Kristinn Guðmundsson var á vakt en þá var hann og Bjarni Hannesson heila og taugasérfræðingar nýkomnir til landsins úr námi.

Daginn eftir hófust rannsóknir og ég fór í mænustunguaðgerð. Það kom í ljós að það hafði sprungið önnur æðaflækja hægra megin í heila sem ekki hafði verið gert neitt við árið 1967.

Það liðu svo rúmar þrjár vikur eða til 1. ágúst 1973 að ég fór í aðgerð. Það var síðan 17. ágúst 1973 að ég fór heim af Borgarspítalanum. Ég held að mesta áfallið eftir þetta hafi verið það að hafa verið krúnurakaður þar sem tískan var að allir væru með axlarsítt hár og var ég með húfu á höfðinu meira og minna fram í maí árið 1974.

Það er kominn 16. júní

Um miðnætti 15.júní 1974 var verið að mála húsið okkar að utan á Laugalæknum og ég kallaði á fólk að ég væri búinn að laga kaffi og mér leið eins og hvern annan dag. Undir morgun vakti ég mömmu þar sem mér var orðið svo íllt í höfðinu aftan til og þá áttaði mamma sig  á því hvað væri að gerast og það í þriðja sinn og hringdi strax á sjúkrabíl. Það sem olli heilablæðingunni í þetta sinn var pínulítil æðaflækja sem hafði gefið sig í heilahólfi í hnakkagrófinni.

Nú ætla ég að lýsa því hvernig þetta leit út frá sjónarhóli barns / unglings að þurfa að vera lokaður inni á sjúkrahúsi annað sumarið í röð

Meðvitundarleysi:

Næstu viku á eftir var ég meira og minna meðvitundarlaus og var á gjörgæslu er það brá af mér þá sá ég bara allt dimmt yfir og fólk liggjandi nær rænulaust eins og ég sem var skiljanlegt þar sem við vorum á gjörgæslu. Mér leið aftur á móti mjög ílla þarna svo ég reyndi mjög mikið að fá Kristinn lækni til að hleypa mér út en af skiljanlegum ástæðum gerði hann það ekki þetta gekk svo langt að ég reyndi að bera fé á Kristinn  því ég bauð honum allt mitt sparifé en Kristinn féll ekki fyrir því.

Óréttlæti:

Að lokum slapp ég út af gjörgæslunni og fór á deild A4 og þá fór maður að sjá út í góða veðrið og fannst það ansi hart og mikið óréttlæti að þurfa að hanga annað sumarið í röð inni á Borgarspítalanum þannig að ég hóf undirbúning að því að strjúka af spítalanum og var kominn með vitorðsmann að því er ég taldi en þegar til kastanna kom þá var hann ekki tilbúinn þannig að ég þurfti að grípa til plan B.

Það var svo 15. júlí 1974 að ég fór í mína þriðju heilaskurðaðgerð  og í framhaldi af henni fór ég á gjörgæslu og fekk ég mikinn hita og lenti í  mestu martröðinni sem ég lenti í á  Borgarspítalanum þegar ég var settur á kælidýnu þannig að manni leið eins og í klakabaði þið getið ekki ímyndað ykkur hvað það var yndislegt þegar slökkt var á dýnunni en þá fór hitinn upp aftur og martröðin byrjaði aftur en þetta endaði eins og annað og ég fór síðan niður á deild A4.

Þegar ein hjúkrunarkonan sagði mér að ég ætti að fara að hreyfa mig og fara fram úr þá sá ég að komið var að því að hrinda í framkvæmd plani B. Ég lá frammi á gangi þannig að ég ýtti rúminu á undan mér inn allann ganginn og aftur til baka og svo aftur inn til að styrkja mig fyrir flóttann en þegar hjúkrunarkonan sá mig á annarri leiðinni til baka þá fékk ég bátt fyrir og var sendur beint í bólið og þar með held ég að ég hafi gefið upp allar vonir um að geta strokið af spítalanum enda slapp ég skömmu síðar út eða eftir hádegi þann 1. ágúst 1974 ári eftir aðra heilaskurðaðgerðina.

Það hefur örugglega verið mikill léttir hjá starfsfólki deildar A4 þegar ég gekk þaðan út því ég var örugglega ekki auðveldur sjúklingur…

Aðstandendur:

 Það vita það allir sem hafa lent í heilablæðingum að gott er að eiga góða að.

Það hlýtur að taka vel á að vera aðstandandi í veikindum þeirra sem fá heilablæðingar eins og til dæmis í mínu tilfelli þar sem ég  hef  farið í þrjár heilaskurðaðgerðir og aðgerðirnar hver um sig staðið í og yfir 7 klukkustundir samtals um 21 klukkustund. Á meðan á þeim hefur staðið hafa foreldrar mínir og aðrir aðstandendur þurft að bíða milli vonar og ótta að allt fari vel. Fyrir utan alla viðveruna á sjúkrahúsunum meðan ég lá þar.