Bráðameðferð

Í völdum tilvikum er hægt að beita blóðsegaleysandi meðferð, að undangengnum rannsóknum og greiningu á heiladrepi. Það á einungis við ef viðkomandi kemst þegar í stað undir læknishendur. Segaleysandi lyfið er gefið í æð og eyðir í sumum tilvikum blóðtappanum svo að litlar eða engar varanlegar skemmdir verða á heilavef. Önnur bráðameðferð felst í vægri blóðþynningu eða fullri blóðþynningu séu einkennin að koma og fara eða eru hratt versnandi. Stundum þarf að tæma heilablæðingar út með skurðaðgerð ef þær eru stórar. Ávallt þarf að fylgjast með blóðþrýstingi, hjartslætti og meðvitundarástandi fyrsta sólarhringinn eftir heilablóðfall og stundum yfir lengri tíma.

Frekari meðferð

Greinist hjartsláttaróregla, segamyndun í hjarta, skemmdar hjartalokur eða yfirvofandi lokun á stórri hálsslagæð er fullri blóðþynningu beitt. Þótt litlar sem engar æðaskemmdir komi í ljós við rannsóknir er beitt lyfjum, sem draga úr samloðun blóðflagna. Þekktast þeirra er Magnyl® (acetýlsalisýlsýra). Leiðrétta þarf hjartsláttaróreglu með lyfjagjöf eða rafstuði á hjartað eftir því sem við á. Séu verulegar þrengingar á stóru hálsslagæðunum eru þær stundum hreinsaðar að innan til þess að tryggja opna blóðrás til heilans.

Endurhæfing

Þörf á endurhæfingu fer eftir staðsetningu og stærð heilaskemmdarinnar og þeim einkennum sem hún veldur. Langtímamarkmið endurhæfingar er að gera sérhvern einstakling eins hæfan til þess að starfa í umhverfi sínu og kostur er.