1. gr.

Nafn félagsins

Nafn félagsins er Heilaheill kt.611294 2209.  Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík.

2. gr.

Markmið félagsins

Markmið félagsins er að vinna að velferðar- og hagsmunamálum þeirra sem fengið hafa slag (heilablóðfall).  Slag verður þegar æð sem flytur súrefnis- og næringarríkt blóð til ákveðins svæði heilans stíflast eða springur.  Unnið skal að markmiðum félagsins m.a. með eftirfarandi hætti:

a)    Að stuðla að aukinni þekkingu sjúklinga, aðstandenda þeirra og almennings á slagi og afleiðinga þess.

b)       Að bæta skilyrði þeirra er hafa orðið fyrir slagi.

c)       Vinna að ráðgjafar- og upplýsingaþjónustu fyrir þá er hafa orðið fyrir slagi, sjúklinga og aðstandanda þeirra um lifnaðarhætti, réttindi og velferð þeirra.

d)       Að efla samvinnu við félagasamtök er hafa sömu markmið.

3. gr.

Félagsmenn.

Fullgildir félagsmenn eru allir þeir er láta sig varða markmið og tilgang félagsins og greiða árleg félagsgjöld eins og þau eru ákveðin á aðalfundi ár hvert.  Stjórn félagsins er þó heimilt að fella niður félagsgjald hjá félagsmanni sem er mjög sjúkur eða á við bágindi að stríða.

4. gr.

Félagsgjöld.

Tekjustofnar félagsins eru:

a)       Árgjöld félagsmanna.

b)       Framlög, styrkir og gjafir svo og sjálfstæð fjáröflun á vegum félagsins.

5. gr.

Skipun stjórnar.

Stjórn félagsins skal skipuð fimm félagsmönnum: formanni, ritara og gjaldkera, auk tveggja varamanna.  Formaður skal kosinn sérstaklega til þriggja ára, ritari, gjaldkeri og varamenn til tveggja ára.  Ritari gegnir formennsku í forföllum formanns. Varamenn taka þátt í stjórnarfundum.

6. gr.

Starf stjórnar.

  1. Stjórn félagsins ræður málefnum félagsins á milli aðalfunda.
  2. Stjórnarmenn aðrir en formaður, skipta með sér verkum, en hann boðar til stjórnarfunda, stjórnar þeim og skal halda þá óski a.m.k. 2 stjórnarmenn eftir því. Hann hefur eftirlit með starfsemi félagsins og eftirlit með því að lögum og samþykktum þess sé fylgt í öllum greinum.
  3. Stjórn félagsins skal sjá um daglegan rekstur og ber ábyrgð á fjárreiðum félagsins. Varamenn í stjórn taka sæti í stjórn í forföllum aðalmanna og tilnefnir aðalmaður varamann í sinn stað.  Ritari gegnir skyldu formanns í forföllum hans.
  4. Stjórn félagsins skuldbindur félagið gagnvart öðrum aðilum með undirskrift formanns og gjaldkera.  Stjórn getur þó veitt einum eða fleirum prókúru fyrir félagið, að tillögu gjaldkera.  Reikningsár félagsins er almanaksárið.  Allar skuldbindandi ákvarðanir, svo sem kaup eða sala eigna skulu bornar undir félagsfund, sem sérstaklega er til boðað með minnst 14 daga fyrirvara.
  5. Stjórn skal sjá um nauðsynlegar mannráðningar og einnig um skipan fulltrúa í ráð og nefndir félagsins.  Við stjórnarákvarðanir ræður einfaldur meirihluti.
  6. Stjórnin kemur fram fyrir hönd félagsmanna, veitir umsagnir og miðlar upplýsingum til félagsmanna og annarra um það er varðar sérgrein þeirra og hlutverk hennar.
  7. Stjórnarfundir eru lögmætir, er meirihluti er mættur á fund. Varaformaður gegnir formennsku í forföllum.  Gjaldkeri hefur á hendi ábyrgð og eftirlit með fjárreiðum félagsins.

7. gr.

Aðalfundur.

Aðalfundur skal haldinn ekki seinna en í lok febrúar ár hvert og fer hann með æðsta vald í málefnum félagsins og er lögmætur ef löglega er til hans boðað með minnst ½ mánaðar fyrirvara, bréflega og/eða á annan hátt.

Dagskrá aðalfundar:

  1. Skýrsla stjórnar félagsins.
  2. Framlagðir endurskoðaðir reikningar til samþykktar.
  3. Lagabreytingatillögur bornar upp til afgreiðslu.
  4. Kosning stjórnar.
  5. Kosning 2ja skoðunarmanna reikninga.
  6. Fjárhagsáætlun borin upp til samþykktar.
  7. Kosning fulltrúa og talsmanna félagsins í ráð og nefndir.
  8. Önnur mál.

Aukaaðalfund skal halda eftir ákvörðun stjórnar eða ef fimmtungur félagsmanna ber fram ósk til stjórnar þar að lútandi.

8. gr.

Lagabreytingar

Aðalfundur einn tekur ákvörðun um lagabreytingar, er hafa borist stjórn félagsins a.m.k. mánuð fyrir aðalfund.

9. gr.

Ákvarðanir aðalfundar

Ákvarðanir aðalfundar teljast löglegar ef þær eru teknar með einföldum meirihluta og um eignir háð samþykki 2/3 atkvæðisbærra félagsmanna.

10. grein.

Gildistaka

Lög þessi öðlast þegar gildi.

Reykjavík 28.02.2016.