Ástrós Sverrisdóttir skrifar:

Ástrós Sverrisdóttir
Ástrós Sverrisdóttir

Þekkir þú áhættuþætti hjarta- og æðasjúkdóma?
Þú getur haft áhrif á marga þeirra og dregið úr líkunum á að fá þessa sjúkdóma með heilbrigðum lífsstíl. Hjartavernd hefur gefið út bæklinga þar sem hver og einn áhættuþáttur hjarta- og æðasjúkdóma er tekinn fyrir. Bæklingar í þessari ritröð eru orðnir fjórir. Þeir fjalla um reykingar – kólesteról – offitu og sá nýjasti er um heilablóðfall: “Heilablóðfall – háþrýstingur, hvað er til ráða?” Hér verður stuttlega greint frá heilablóðfalli og háþrýstingi en jafnframt er fólk hvatt til að kynna sér bæklinginn.

Heilablóðfall
Tíðni heilablóðfalla hefur farið lækkandi hérlendis en árlega fá u.þ.b. 600 Íslendingar heilablóðfall. Heilablóðfall er þriðja algengasta dánarorsök hérlendis. Með því að þekkja áhættuþætti heilablóðfalla getum við að hluta til dregið úr líkunum á að fá þennan sjúkdóm.
Heilablóðfall/heilaslag er afleiðing skyndilegrar og varanlegrar truflunar á blóðflæði til heilasvæða af völdum æðasjúkdóma. Orsakir heilablóðfalla geta verið mismunandi og eru þau flokkuð eftir orsökum. Meðferð er mismunandi eftir því hver orsökin er. Truflunin á blóðflæði til heila getur annars vegar orsakast af stíflu í heilaslagæð vegna blóðtappa (heiladrep) eða að æð brestur og þá blæðir inn í heilavefinn (heilablæðing). Skammvinn blóðþurrð í heila er þegar einkenni um heilablóðfall koma fram í stuttan tíma en ganga svo til baka. Mikilvægt er að þekkja einkenni heilablóðfalls. Þau geta verið mismunandi og fara þau m.a. eftir staðsetningu skemmdar í heila og hversu stór skemmdin er. Heilablóðfall verður að meðhöndla strax enda er hægt í völdum tilvikum að beita blóðsegaleysandi meðferð, þ.e. nota lyf sem leysa upp blóðsegann (blóðtappann). Byrjunareinkenni heilablóðfalls geta verið skyndilegur slæmur höfuðverkur, ógleði, uppköst eða skert meðvitund. Hringið í neyðarbíl ef einkenni fara versnandi. Rannsóknir Hjartaverndar og erlendar rannsóknir hafa leitt í ljós helstu áhættuþætti hjarta- og æðasjúkdóma. Áhættuþáttum heilablóðfalls má annars vegar skipta í þá þætti sem við getum ekki breytt og hins vegar þá þætti sem við getum breytt með lífsstíl okkar.

Áhættuþættir sem ekki er hægt að breyta:
Aldur  Kyn  Fjölskyldusaga – Fyrri saga um heilablóðfall/skammvinna heilablóðþurrð.

Áhættuþættir sem hægt er að breyta/hafa áhrif á:
Háþrýstingur – Reykingar – Kyrrseta – Offita Sykursýki – Hækkað kólesteról  – Áfengismisnotkun – Notkun á getnaðarvarnarpillunni (einkum ef konan reykir og er eldri en 35 ára) – Streita

Veistu blóðþrýsting þinn? Láttu mæla hann
Aðaláhættuþáttur heilablóðfalla er háþrýstingur. Hann tvöfaldar áhættuna á að fá heilablóðfall. Eina leiðin til að greina háþrýsting er blóðþrýstingsmæling. Fólk getur verið með hækkaðan blóðþrýsting í mörg ár án þess að gera sér grein fyrir því. Mæla þarf blóðþrýsting nokkrum sinnum (2-3 mælingar) við sömu aðstæður með nokkurra daga millibili áður en háþrýstingur er greindur. Mælt er með að fólk sé í reglubundnu lækniseftirliti þegar það er með þekktan háþrýsting. Hjartavernd hvetur fólk eftir fertugt til að láta mæla blóðþrýsting og aðra þekkta áhættuþætti eins og blóðfitu og fastandi blóðsykur og fyrr ef hjarta- og æðasjúkdómar eru í ætt eða til staðar eru þekktir áhættuþættir.

Hvað er til ráða við háþrýstingi?Helstu ráðin við háþrýstingi eru megrun, minnkuð saltneysla og reglubundin hreyfing ásamt framangreindum áhættuþættum. Reykingar eru þar ofarlega á lista. Í vissum tilfellum duga þessi ráð ekki og er þá lyfjameðferð einnig notuð. Þróun í lyfjameðferð við háþrýstingi hefur fleygt fram á undanförnum áratugum.

Tíðni og meðferð við háþrýstingiHáþrýstingur er algengur. Samkvæmt rannsóknum Hjartaverndar hækkar tíðni með hækkandi aldri. Þrjú prósent karla og kvenna eru með háþrýsting um þrítugt en tíðnin er kominn upp í um 40% um sextugt. Meðferð við háþrýstingi hefur verið í örri þróun sl. áratugi. Þegar bornir eru saman hópar sem eru með þekktan háþrýsting og í viðeigandi meðferð árið 1969 og 2001 kemur í ljós að miklar framfarir hafa orðið á meðferð á tímabilinu. Einungis 6% kvenna og 2% karla með háþrýsting voru í viðunandi meðferð árið 1969 en talan er kominn upp í 63% hjá konum og 40% hjá körlum árið 2001. Á sama tímabili hefur dánartíðni af völdum heilablóðfalla lækkað á tímabilinu sem má að hluta til þakka bættri meðferð við háþrýstingi.

Að lokum…
Með heilbrigðum lífsstíl getum við dregið úr líkunum á að fá heilablóðfall eða að greinast með háþrýsting. Munið að háþrýstingur er einungis einn af þekktum áhættuþáttum hjarta- og æðasjúkdóma. Kynnið ykkur bæklinga Hjartaverndar. Þeir fást í afgreiðslu Hjartaverndar í Holtasmára 1, Kópavogi og eru einnig á heimasíðu Hjartaverndar: www.hjarta.is/utgafa.  Góð heilsa hefst hjá þér.

Áður birt í Morgunblaðinu, 27.06.2002