Grensás – Deildin gleymda?

Gunnar Finnsson
Gunnar Finnsson

Það er ánægjuefni að geta rætt um ríkisframtak,  sem hefur stóraukið lífsgæði fjölda fólks, gert það sjálfsbjarga og að virkum þátttakendum í þjóðarframleiðslunni.  Jafnframt hefur þetta framtak verið þjóðarbúinu mjög svo arðbært.  Hér er um að ræða  Grensásdeild Landspítala Háskóla Sjúkrahúss,  en þar fer fram starfssemi,  sem ekki heyrist mikið um í daglegu tali.  Þangað koma þau,  sem sakir atburða eins og slysa, stoðkerfisaðgerða eða heilaskaða þurfa endurhæfingar við og það oft í langan tíma.   Þorri þessa fólks er ekki sjálfsbjarga,  þegar það kemur,  en með þrotlausri þjálfun og aðstoð nær meirihlutinn því marki og þar af verður hluti virkur í atvinnulífinu og skattgreiðendur á ný í stað þess að þurfa að þiggja örorkulífeyri eða aðrar bætur um ókomna tíð.Þessi árangur hefur ekki náðst af tilviljun.   Á Grensás hefur byggst upp frábært hámentað, velþjálfað og samhent lið lækna, hjúkrunarfólks, iðju- og sjúkraþjálfa,  sem ásamt góðu aðstoðarfólki hefur þróað það sem kalla mætti hágæða endurhæfingasmiðju.  En þessi starfsemi virðist ekki metin að verðleikum af mörgum öðrum en þeim sem hafa notið hennar.  Samkvæmt Hagstofu Íslands  fjölgaði íbúum landsins frá árinu 1973,  þegar Grensásdeild tók til starfa,  og þar til nú um tæp 40 %.

Jafnframt hefur meðalaldur hækkað,  sem leitt  hefur til hlutfallslegrar hækkunar á fjölda þeirra sem endurhæfingu þurfa.    Fjöldi legurúma á deildinni,  48,   hefur hins vegar staðið í stað.   Og jafnframt er annari af þeim tveimur hæðum ,  sem sjúkrastofurnar eru á,  lokað að sumri til í  einn mánuð.  Þá er stofan þar sem sjúklingar eru þjálfaðir á bekkjum  sem og æfingartækjastofan mjög þröngar, er gerir aðkomu erfiða fyrir þá sem eru í hjólastól eða ganga við hækjur,  sem og starfsfólkið.   Í iðjuþjálfun er sjúklingurinn m.a.settur í umhverfi,  sem er líkast því sem finna má á venjulegu heimili og fellst þjálfunin í því að gera hann/hana sjálfsbjarga í því umhverfi.  Þar er brýn þörf fyrir stærri og betri aðstæður til að beita megi allri þeirri tækni,  sem endurhæfing getur boðið upp á.  Aðgengi og þjálfun í tölvunotkun sjúklinga er sáralítil.   Er það miður því fátt getur betur linað áþján einangrunar og víkkað sjóndeildarhring þeirra,  sem bundnir eru við rúm eða hjólastól,  en að læra á og hafa aðgang að tölvu og geta þar með komist í samband við heim ótæmandi fróðleiks,  upplýsinga og afþreyingarmöguleika.   Skerðingu líkamlegrar athafnagetu fylgir mikil andleg áreynsla og kvíði,  sem getur oft breyst í geðfötlun um lengri eða skemmri tíma og því þýðingarmikið að samfara líkamlegri endurhæfingu fari líka þjálfun í að styrkja og viðhalda geðheilsu.

Grensásdeild er oft lokahlekkurinn í meðferðarkeðju,  sem hefst með liðaskiptum eða öðrum aðgerðum.   Hæft lið þeirra,  sem þær aðgerðir framkvæma nýtist ekki til fulls því legurúm vantar.  Langir biðlistar sjúklinga,  sem búa við stöðuga verki hafa því myndast.Um arðbærni Grensásdeildar þarf ekki að fjölyrða.  Árið 2004 voru samkvæmt Hagstofu Íslands meðalatvinnutekjur á hvern starfandi einstakling á landinu 2,716 m.kr. og samkvæmt Ríkisskattstjóra voru meðal tekjutengdir skattar og útsvör á einstakling um 660 þús kr..  Það árið var heildarrekstrarkostanaður legu og dagdeilda Grensásdeildar 411. m.kr.  og göngudeildar 131 m.kr. samtals 542 m.kr..  Fjöldi legu og dagdeilda sjúklinga var 589.  Á göngudeild voru 3.269 komur.   Þótt eingöngu sé miðað við fyrri töluna (margir göngudeildarsjúklingar voru áður legusjúklingar),  og miðað við að aðeins 20%,  118,  geti horfið til starfa á ný mundu árlegar atvinnutekjur þeirra nema 320 m.kr. og skattatekjur ríkisins af þeim um 78 m.kr..

Innan tveggja ára mundu því atvinnutekjur þeirra nema hærri upphæð en heildarkostnaði Grensásdeildar árið,  sem þeir dvöldu þar og skattatekjur ríkisins af þeim mundu á tæpum sjö árum greiða upp þann kostnað.  Þá er ótalinn sparnaðurinn við að lækka má eða fella niður örorkubætur og lífeyri,  sem ella hefði þurft að greiða.  Og hvað þau snertir,  sem geta ekki farið á vinnumarkaðinn aftur en þjálfast nóg til að geta bjargað nauðþurftum sínum sjálf þá er seint metið til fjár þau auknu lífsgæði sem það færir þeim.

Einn besti mælikvarði á þróunarstig þjóðar er hvernig hún annast aldna, sjúka og aðra ,  sem geta ekki bjargað sér sjálfir um lengri eða skemmri tíma.  Þótt frábærlega  hafi tekist með Grensásdeild þarf mun meira.  Auðvitað er það skylda ríkisins að mæta þessari þörf betur en gert hefur verið.  En er það ekki jafnframt skylda okkar,  sem deildin hefur byggt upp,  að styðja við hana ekki aðeins í orði heldur líka í verki?   Það þarf að gera á skipulagðan máta og ættum við sem flest að leggja hönd þar á plóginn.

Gunnar Finnsson
(Höfundur, rekstrarhagfr, og fyrrv.  varaframkvstj.
hjá alþjóðaflugmálastofnuninni, dvaldist á Grensásdeild).