Níðst á þeim sem minnst sín mega

STÓRSKERÐING ÞJÓNUSTU GRENSÁSDEILDAR

Gunnar Finnsson, rekstrarhagfræðingur og formaður Hollvina Grensásdeildar:

Gunnar Finnsson
Gunnar Finnsson

Böðulsöx niðurskurðar á heilbrigðissviðinu hefur á ný verið hafin og höggvið af Grensásdeild Landspítala Háskólasjúkrahúss svo mjög að það eyðileggur möguleika hennar á að gegna áfram því lykilhlutverki í heilbrigðisþjónustu landsins og lífi þúsunda  einstaklinga, sem hún gert með svo glæsilegum árangri hingað til.

Grensásdeild er miðstöð frumendurhæfingar á Íslandi einkum fyrir fólk með mænuskaða,  heilaskaða  og fjöláverka.  Aðeins þar er veitt  sérhæfð teymisþjónusta bæði á legu- og göngudeildargrunni.  Í teyminu felst að saman vinna læknar,  sjúkra- og iðjuþjálfar, hjúkrunar-,  talmeina- og sálfræðingar og fleiri við að byggja upp og reglulega yfirfara það meðferðarkerfi sem talið er munu skila mestum árangri fyrir hvern sjúkling.   Reynslan hefur sannað að þar fer einskaklega hæfur hópur fólks.  Grensásdeild er ekki í samkeppni við sjálfstætt starfandi þjónustuaðila, t.d. sjúkraþjálfara,  enda geta þeir ekki veitt svo umfangsmikla meðferð.

Síðan Grensásdeild tók til starfa 1973 hefur einungis þjálfunarlaug  verið bætt við.  Á þessu tímabili hefur þjóðinni fjölgað um meir en 40% og þeim,  sem endurhæfingu þurfa,   hefur fjölgað hlutfallslega meira vegna hærri meðalaldurs og vegna þess að nú bjargast fleiri úr slysum en áður.  Það er því mjög knýjandi og vaxandi þörf fyrir úrbætur.  Rétt er að muna í því sambandi að endurhæfing kemur fyrst og fremst að gagni ef henni er beitt tímanlega.  Dragist hún, hvað þá um nokkra mánuði,  stórskerðir það möguleikana á að bæta færni til fyrra horfs og leiðir í mörgum tilfellum til varanlegs skaða og skerðingar á starfsþreki og möguleikum til að verða sjálfbjarga.

Um 70% allra sjúklinga á Grensásdeild eru á vinnufærum aldri,  þ.e. yngri en 70 ára og  meðalaldur þeirra um 55 ár.   Því betri sem aðstæður til endurhæfingar verða,  þeim mun líklegra er að sjúklingar komist til starfa á ný.  Að meðaltali hverfa um 20% þeirra sjúklinga,  sem útskrifast þaðan til starfa á ný.  Miðað við meðaltöl Hagstofu Íslands og Ríkisskattstjóra hafa atvinnutekjur þessara fyrverandi sjúklinga á tveimur árum numið hærri upphæð en heildarkostnaði Grensásdeildar það árið,  sem þeir voru þar;  og skatttekjur ríkisins af þeim greiða upp þann kostnað á tæpum sjö árum.  Þá er ótalinn sparnaðurinn við að lækka má eða fella niður örorkubætur og lífeyri,  sem ella hefði þurft að greiða.  Og hvað þau snertir,  sem geta ekki farið á vinnumarkaðin aftur en þjálfast nóg til að geta bjargað nauðþurftum sínum sjálf þá verða aukin lífsgæði þeirra seint metin til fjár.   Það er því augljóst að starfsemi Grensásdeildar er þjóðhagslega mjög arðbær.

Með þetta allt í huga vekur það furðu að eftir margra ára fjársvelti og niðurskurð á góðæristímum þrátt fyrir að sannað væri að Grenásdeild skilaði miklum þjóðhagslegum hagnaði,  er nú vegið enn meir að starfi hennar.  Ákveðið hefur verið að lækka þurfi þar útgjöld um 136 milljónir króna (rösk 9%).  Það á að nást  með því m.a. að:

1.        Fækka legurúmum úr 40 í 26 með því að loka annarri legudeildinni af þeim tveimur sem á Grensásdeild eru.
2.        Stækka á dagdeild.
3.        Fækka hjúkrunarfræðingum og sjúkraliðum um 12 stöðugildi.
4.        Fækka deildarstjórum.  Einn deildarstjóri verður yfir bæði legudeild og dagdeild.

Stækkun dagdeildar hrekkur skammt því sjúklingar á legudeildum eru þar einfaldlega af brýnni þörf.  Þegar er búið að lækka legutíma eftir aðgerðir eins og t.d. liðaskipti niður í algert lágmark.  Nálægt fjórðungur innlagna á Grensásdeild er vegna slysa.   Legutími þeirra sjúklinga er oft langur og umfang þjónustu við þá iðulega með því mesta sem veitt er í endurhæfingu.   Það er því augljóst að fækkun legurúma úr 40 í 26 (meir en þriðjung) mun hafa mikil áhrif á þá sem þurfa nauðsynlega á endurhæfingu að halda.  Lífsgæðum þeirra mun stórlega hraka því möguleikar á getu til sjálfsbjargar munu minnka og fjöldi þeirra,  sem ná starfsgetu mun lækka.   Afleiðingarnar,  byggðar á biturri reynslu,  eru að kostnaður samfélagsins eykst til muna þar sem þeim sjúklingum mun fjölga verulega,  sem þurfa munu meiri og lengri og þá oftast varanlega  aðstoð frá hinu opinbera.  Þá er ósvarað þeirri spurningu hvað eigi að gera við þá sjúklinga sem komast ekki heim vegna aðstöðunnar þar?

En alvarlegast er þó að við blasir nú að það sérhæfða og frábæra  endurhæfingarteymi,  sem á Grensásdeild hefur myndast,  skerðist það mikið að hæfni þess til halda uppi og þróa áfram þá hástigsþjónustu sem það veitir muni glatast.   Það tekur áratugi að byggja upp slíka hæfni og það væri glæpur gagnvart þjóðinni að varpa henni á glæ vegna kostnaðar sem nemur nálægt hálfum áætluðum kostnaði við starfslokasamninga stjórnenda Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins.   Hafa þeir skilað þjóðinni meiru en sérhæfða teymið á Grensásdeild?