Um Hollvinina

HOLLVINIR GRENSÁSDEILDAR

(Kennitala: 670406-1210 – Númer bankareiknings: 311-13-301170)

HeilaheillTilgangur samtakanna Hollvinir Grensásdeildar – HG
Tilgangur samtakanna, sem voru stofnuð 5. apríl 2006,  er að styðja við,  efla og styrkja endurhæfingarstarfsemi þá,  sem fram fer á Grensásdeild Landspítala Háskólasjúkrahúss eða í tengslum við þá starfsemi.  Er það gert með öflun fjár til þeirrar starfsemi og eins með því að vekja athygli á og hvetja til styrktar starfseminnar á opinberum vettvangi.  Meðlimir eru 134. Meira má lesa um samtökin undir Hollvinir á heimasíðu samtakanna Heilaheill.

Hvað gerir Grenásdeild sérstaka?
Lítið hefur borið á Grensásdeild en hún gegnir lykilhlutverki í heilbrigðisþjónustu landsmanna. Deildin er miðstöð frumendurhæfingar á Íslandi einkum fyrir fólk með mænuskaða,  heilaskaða  og fjöláverka.  Aðeins þar er veitt  sérhæfð teymisþjónusta bæði á legu- og göngudeildargrunni.  Í teyminu felst að saman vinna læknar,  sjúkra- og iðjuþjálfar, hjúkrunar-,  talmeina- og sálfræðingar og fleiri við að byggja upp og reglulega yfirfara það meðferðarkerfi sem talið er munu skila mestum árangri fyrir hvern sjúkling.

Þjóðhagsleg arðbærni
Um 70% allra sjúklinga á Grensásdeild eru á vinnufærum aldri,  þ.e. yngri en 70 ára og  meðalaldur þeirra er um 55 ár.   Því betri sem aðstæður til endurhæfingar verða,  þeim mun líklegra er að sjúklingar komist til starfa á ný.  Að meðaltali hverfa um 20% þeirra sjúklinga,  sem útskrifast þaðan til starfa á ný.  Miðað við meðaltöl Hagstofu Íslands og Ríkisskattstjóra hafa atvinnutekjur þessara fyrverandi sjúklinga á tveimur árum numið hærri upphæð en heildarkostnaði Grensásdeildar það árið,  sem þeir voru þar;  og skatttekjur ríkisins af þeim greiða upp þann kostnað á tæpum sjö árum.  Þá er ótalinn sparnaðurinn við að lækka má eða fella niður örorkubætur og lífeyri,  sem ella hefði þurft að greiða.

Hvað er vandamálið?
Síðan  Grensásdeild tók til starfa 1973 hefur einungis þjálfunarlaug  verið bætt við.  Á þessu tímabili hefur þjóðinni fjölgað um meira en 40% og þeim,  sem endurhæfingu þurfa,   hefur fjölgað hlutfallslega meira vegna hærri meðalaldurs og vegna þess að nú bjargast fleiri úr slysum en áður en um fjórðungur innlagna á Grensásdeild er vegna slysa.  Það er því mjög knýjandi og vaxandi þörf fyrir úrbætur.   Rétt er að hafa í huga að endurhæfing kemur fyrst og fremst að gagni ef henni  beitt tímanlega.  Dragist hún,  hvað þá um nokkra mánuði,  stórskerðir það möguleikana á að bæta færni til fyrra horfs og leiðir í mörgum tilfellum til varanlegs skaða og skerðingar á starfsþreki og möguleikum til að verða sjálfbjarga.

Viðbrögð stjórnvalda
Eftir margra ára fjársvellti og niðurskurð á góðæristímum er nú á timum kreppu vegið enn meir að starfi Grensásdeildar.  M.a. hefur verið ákveðið í sparnaðarskyni að fækka legurúmum úr 40 í 26 (meir en þriðjung) og loka annarri legudeildinni af þeim tveimur sem fyrir eru og fækka hjúkrunarfræðingum og sjúkraliðum um 12 stöðugildi og deildarstjórum um einn.  Þetta mun hafa mikil áhrif á þá sem þurfa nauðsynlega á endurhæfingu að halda.

Getur þú aðstoðað okkur?
Grensásdeild mun búa við mikið fjársvelti og leitast HG við að finna leiðir til að afla fjár til styrktar þess lykilstarfs,  sem hún gegnir.  Þú getur aðstoðað með því að gerast meðlimur og fylla út hjálagt eyðublað.  Árgjaldið er aðeins 1.000- krónur.

——————-
15/02/09