Fyrsti laugardagsfundur HEILAHEILLA var haldinn 03.09.2011 við fjölmenni í Síðumúla 6, Reykjavík [SÍBS-húsið]. Þórir Steingrímsson, formaður, gaf skýrslu um starfið og minnti fundarmenn að málefni félagsins skiptast í meginatriðum í þrennt. Forvörn, meðferð og endurhæfing. Minntist hann á stöðu félagsins í samstarfi við Hjartaheill, Samtaug og Hollvini Grensásdeildar. Albert Páll Sigurðsson, taugasérfræðingur og stjórnarmaður í HEILAHEILL, fór yfir stöðu félagsins. Taldi hann að félagið væri á réttri braut og hvatti fundarmenn til dáða og lagði áherslu á að þeir notuðu í meira mæli orðið slag, sem rétta skilgreiningu á því áfalli sem félagið snýst um. Þá ræddi Dr. Marianne E. Klinke taugahjúkrunarfræðingur og formaður Fagdeildar taugahjúkrunarfræðinga um stöðu félags síns og samvinnu við HEILAHEILL. Taldi hún mikilvægt fyrir þessi félög að starfa saman. Þá las Sigríður Þorvaldsdóttir leikkona upp úr verkum Jóns Hjartarsonar og skemmti fundarmönnum, við góðar undirtektir.