Algengi hjartasjúkdómsins gáttatifs hefur aukist um fimmtung síðasta áratuginn samkvæmt nýrri rannsókn íslenskra vísindamanna frá Landspítala og Hjartavernd.
Davíð O. Arnar, hjartalæknir á Landspítala og Hrafnhildur Stefánsdóttir læknir, í samvinnu við ThorAspelund og Vilmund Guðnason vísindamenn hjá Hjartavernd, unnu að rannsókninni.
Búast má við að gáttatif verði enn meira áberandi sjúkdómurá þessari öld. Hann er meðal fjölmargra vandamála sem í reynd fylgja auknum lífsgæðum og hækkandi lífaldri.
Ekki nóg með það heldur leiðir rannsóknin líkur að því að fjöldi Íslendinga með gáttatif gæti þrefaldast á næstu árum. Þessi fjölgun skýrist að stærstum hluta af fjölgun aldraðra, en einnig af samspili við áhættuþætti eins og offitu og sykursýki tvö. Þessi spá er sú fyrsta sinnar tegundar í Evrópu og hefur vakið athygli enda bendir hún til þess að sjúkdómurinn geti orðið að faraldri á Vesturlöndum.