Aðalfundar HEILAHEILLA var haldinn fimmtudaginn 22. febrúar 2007 kl.20:00 í “Rauða salnum” á II. hæð að Hátúni 12, 105 Reykjavík samkvæmt 7.gr. og 9.gr. laga félagsins. Þórir Steingrímsson gaf aftur kost á sér og var hann kosinn formaður.
Þær Bergþóra Annasdóttir gjaldkeri og Jónína Ragnarsdóttir ritari gáfu ekki kost á sér og var þeim þökkuð störfin með blómum. Í stjórn voru einróma kosin Edda Þórarinsdóttir, Sigurður H Sigurðsson, Albert Páll Sigurðsson og Ellert Skúlason. Fundarmenn fengu sér gott kaffi og eftir það tók formaður Hollvina Grensásdeildar, Gunnar Finnsson, rekstrarhagfræðingur og fyrrverandi aðstoðarframkvæmdastjóri hjá alþjóðaflugmálastofnuninni í Kanada til máls og var lagður góður rómur að.
Hann sagði, sem félagi í Heilaheill, hafa áhyggjur af því ef mörg félög væru stofnuð um sama málefni, heilann, og væri hætta á að samlegðaráhrifin yrðu ekki hin sömu. Þá vakti hann einnig athygli á þessum “sérframboðum” öryrkja og aldraðra og spunnust um það góðar og gagnmerkar umræður. Það var ljóst að eftir málefnalegar umræður þá fóru fundarmenn af fundi fullir bjartsýni um að “Áfall er ekki endirinn” og “Þetta er ekki búið”!