Miðvikudaginn 25. apríl fóru fulltrúar HEILAHEILLA, Þórir Steingrímsson og Birgir Henningsson, á Snæfellsnesið og kynntu starfsemi félagsins undir yfirskriftinni: “Tíminn skiptir máli”! Héldu þeir sinn fyrsta fund í Ólafsvík og síðan á Stykkishólmi og voru þeir vel sóttir. Farið var yfir reynslusögu sjúklings.
Gerð var grein fyrir starfsemi félagsins og að hverju skuli stefnt. Meginmarkmið þess er að vera með forvarnarstarf í öllum byggðalögum landsins, kynna fyrstu einkenni heilablóðfalls og hvernig er hægt sé að bregðast við með skjótum hætti, til að koma í veg fyrir frekari skaða vegna áfallsins. Kynnt voru framsækin sjónarmið lækna á Landspítalanum, er varðar slagið (heilablóðfallið), er komu fram í fyrirlestri Björns Loga Þórarinssonar, taugafræðings á B2, Landspítalanum, er hann hélt á læknaráðstefnu í janúar s.l.. Þá var vakin athygli á gáttatifi og hættunni á að það geti leitt til slags. Þá voru kynntar aðferðir hvernig hægt sé að þekkja nokkur helstu einkenni áfallsins og hvernig hægt sé að bregðast við.
Að lokum var Heila-appið í snjallsíma kynnt, eiginleikar þess og kostir, er virkar það sem öruggur persónulegur neyðarhnappur í 112, er gefur Neyðarlínunni upp nákvæma GPS-staðsetningu um vettvang þegar heilablóðfallið á sér stað.
Þegar hafa um 3000 manns hlaðið þessu appi á síman sinn og vitað er til þess að u.þ.b. 18 manns hafa þegar notað það. Er stefnt að því að allir landsmenn hafi þetta app til reiðu í símanum, bæði sem öryggistæki fyrir sig og svo aðra sem eru í námunda við slagþola. Margar fyrirspurnir voru lagðar fram og margir fundarmenn voru forvitnir um sína reynslu af svipuðum einkennunum heilablóðfalls.