Á dögunum heimsótti Þórir Steingrímsson, formaður HEILAHEILLA, hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands, Eirbergi, við Eiríksgötu ásamt öðrum fulltrúum sjúklingafélaga. Umræðurnar voru góðar og margar fyrirspurnir lagðar fram. Undanfarin ár hefur þessum félögum verið boðið til þátttöku í panelumræðum við hjúkrunarfræðinemendur á þriðja ári í Háskóla Íslands. Heilaheill hefur verið eitt af þessum samtökum. Tilgangur þessara umræðna er annars vegar að nemendur kynnist reynslu fólks af langvinnum sjúkdómum og hins vegar að þau kynnist völdum sjúklingasamtökum. Þátttaka gesta háskólans hefur því falist í annars vegar að kynna samtökin og hins vegar segja frá meginheilsufarsvanda sem félagarnir glíma við. Sú frásaga getur verið persónuleg ef fólk kýs, þ.e.a.s. segja frá eigin reynslu. Síðan eru samræður við nemendur og þeir hafa gjarna spurningar sem þeir leggja fyrir þátttakendur í panel.