Laugardaginn 8. mars var haldinn aðalfundur HEILAHEILLA fyrir fullu húsi, með beintengingu á Skype við fundarsal á Akureyri, undir fundarstjórn Péturs Guðmundarsonar hrl., með fulltingi Páls Árdal á Akureyri. Gerð var grein fyrir stöðu félagsins og starfseminni s.l. ár og framlagðir endurskoðaðir reikningar, er voru samþykktir. Þá var gengið til formannskosninga og bauð Særún Harðardóttir sig fram á móti sitjandi formanni, Þóri Steingrímssyni. Þórir bar sigur úr bítum, en ekki tókst að ljúka kjöri annarra stjórnarmanna og frestaði því fundarstjóri aðalfundi. Tekur stjórnin ákvörðun um tímasetningu framhaldsaðalfundar og sendir út fundarboð þar um, eins og lög félagsins kveða á um. Bornar voru fram kaffiveitingar og með góðgæti í boði félagsins, sem góður rómur var gerður að.