Í febrúar síðastliðnum gafst mér færi á að sitja stofnfund félaga slagsjúklinga frá Noregi, Svíþjóð, Danmörku, Færeyjum, Íslandi og Finnlandi, í boði Heilaheillar. Það var sérlega ánægjulegt að fá tækifæri til að sitja þennan stofnfund og kynnast vinnu sem er í gangi hjá norrænu félögunum. Öll vinna þau að því að efla velferð og berjast fyrir brýnustu hagsmunum einstaklinga sem fengið hafa slag, ásamt því að standa fyrir fræðslu til að auka þekkingu slagsjúklinga, aðstenda þeirra og almennings.
Formenn félaga í hverju landi fyrir sig sögðu frá starfi samtaka sinna oghvernig vinna þeirra hefur farið fram undanfarin ár.
Áhrifaríkt atriði á fundarskrá var samtal tveggja einstaklinga þar sem annar þeirra, ungur karlmaður, hafði fengið slag og hinn var eiginkona slagsjúklings. Þau töluðu saman og kynntu þannig reynslu sína fyrir áheyrendum. Karlmaðurinn var einungis 32 ára þegar hann fékk slag og lýsti hann áhrifum þess og upplifun í eins stuttu máli og hægt er. Aðstandandinn benti á atriði sem aldrei voru rædd við þau í bataferlinu svo sem breytingar í kynlífi og hættuna á þunglyndi. Þó nokkur ár eru liðin síðan líf þeirra breyttist fyrirvaralítið eða fyrirvaralaust, eins og þessi áföll koma venjulega, og í báðum tilvikum var bati mikill. Hvorugur aðilinn hafði þó náð fyrri heilsu.
Íslensku samtökin hafa mikinn hug á að gera sitt félag sem sýnilegast. Starfi þeirra svipar mjög til þess sem verið er að gera á hinum Norðurlöndunum, og er að miklu leyti fólgið í að aðstoða einstaklinga sem fengið hafa slag, upplýsa þá og aðstandendur þeirra um hvað hægt er að gera í þessum aðstæðum og hvetja fólk til að gera sjálft það sem hægt er til að fyrirbyggja hættu á slagi.
Á upplýsingarsíðu Heilaheilla er að finna lýsingar á einkennum slags. Á hverjum degi fá að meðaltali tveir einstaklingar á Íslandi slag eða blóðrásartruflanir sem hafa alvarlegar afleiðingar fyrir kerfi líkamans, sem í flestum tilvikum koma fram sem einhvers konar skerðing á færni. Hættan á slagi er mest eftir 65 ára aldur, en fleiri þættir sem ekki er hægt að hafa áhrif á eru einnig fyrir hendi. En þar má líka finna ábendingar um hvað ber að hafa í huga og hvernig hægt er að minnka eða fyrirbyggja hættuna á slagi.
Með daglegri hreyfingu og helst útivið, hollu fæði í hæfilegu magni, jafnvægi í daglegu lífi, reykleysi og eftirliti með eigin heilsufari svo sem þyngd, blóðþrýstingi og kólesteróli getum við sjálf dragið úr hættunni.
Reykingar stuðla að hjarta og æðasjúkdómum, og margfalda aðra áhættuþætti. Hár blóðþrýstingur er þögull áhættuþáttur sem veldur æðaskemmdum og er ein tíðasta ástæðan fyrir
blóðrásartruflunum sem seinna leiða til slags. Því ættu allir að láta mæla blóðþrýsting og meðhöndla í samráði við lækninn sinn, sérstaklega ef háþrýstingur er þekktur í fjölskyldunni. Mikilvægt er að fylgjast af skynsemi með heilsufari sínu og einkennum um breytingar á því. Víða er hægt að fá blóðþrýsting og púls mældan, svo sem í apótekum eða á vinnustöðum.
Hvert ofantaldra atriða skiptir máli og með jákvæðu hugarfari má leita leiða til að breyta óæskilegum venjum og líferni. Það er ef til vill í mannlegu eðli að finna undankomuleiðir og eðlilegt að það vaxi manni í augum að eiga að breyta venjum sínum. En þar sem ég hlustaði á þessa einstaklinga lýsa af einlægni þeim breytingum sem urðu á lífi þeirra við áfallið varð mér mikilvægi þess að viðhalda heilbrigði mínu enn ljósara en áður.
Það má alltaf finna leiðir til að hreyfa sig meira eða bæta matarvenjur sínar. Í flestum tilvikum veit einstaklingurinn hvað æskilegt er í þeim efnum en oft liggur vandinn í því að framkvæma og koma sér af stað. Hver og einn ætti að finna leiðir sem henta sér sjálfum, og þá er mikilvægt að líta á það sem jákvætt ferli. Það er svo sannarlega til mikils að vinna möguleikarnir margir og best að byrja strax í dag.
Valgerður Hermannsdóttir,
hjúkrunarfræðingur og
stjórnarmaður Hjartaheilla