Heilabrot – Öryrkjar og félagslegur arfur

Ingólfur Margeirsson, rithöfundur
Ingólfur Margeirsson, rithöfundur
Ingólfur Margeirsson, rithöfundur

Um daginn þurfti ég að fara með bunka af óhreinum fötum í fatahreinsun. Þetta var lítil sápusjoppa í Þingholtunum. Aðgengið tók ekki vel á móti mér: Um tíu sentímetra hár þröskuldur og níðþung eikarhurð. Ég hafði þetta þó af og gat lagt bunkann á afgreiðsluborðið fyrir framan geðstirða konu sem eflaust átti efitt einkalíf og fjárhagurinn erfiður. Alla vega bar svipurinn það með sér. Þótt þvotturinn væri kominn á borðið voru enn tvær íþróttatöskur í bílnum. Ég spurði hana hvort hún vildi vera svo vingjarnleg að kippa þeim innfyrir því ég væri helftarlamaður eftir heilaslag. Og ætti erfitt með þröskuldinn hennar.  Konan svaraði þvert nei. Ég spurði eins og asni af hverju ekki. Og þá kom svarið: Ég fæ ekki borgað fyrir svoleiðis vinnu. Ég var svo asnalega kjaftstopp að ég gat ekki stamað upp orði. Ungur, geðugur maður sem beið fyrir aftan mig, sagði þetta lítið mál, snaraðist út í bíl og sveiflaði töskunum upp á borðið fyrir framan herfuna. Ég var orðinn svo svekktur að ég spurði konuna, af hverju aðgengið væri svona erfitt. Konan sagði þá að búðin hafði verið óbreytt síðan 1928, Ég spurði á móti 2008 væri ekki í dag? Fékk ekkert svar.

Þegar ég var aftur sestur undir stýri, fór ég að  hugsa um að hugmyndir mínar að aðstoð við öryrkja hafði verið alrangar. Eins og margir hafði ég alltaf haldið að helsta velgjörð við þennan hóp væri að fá úthlutað viðunandi bílastæðum, hljóta þolanlegt aðgengi og geta notað lyftur og skátröppur til að komast sömu leiðar og aðrir. Þessa kröfu mætti til dæmis að sjálfsögðu gera til opinberra stofnana og bygginga. Stjórnendur Þjóðleikhússins og forráðafólk fleiri opinberra stofnanna hafa þó ekki sinnt þessari sjálfsögðu þjónustu.

Í hugsunum mínum rann upp fyrir mér að meginaðstoð við fatlaða eru ekki þessi mál. Það mikilvægasta er viðmót fólks og hýtt hjartalag. Það er afar mikilvægt að fólk rétti náunganum, fötluðum eða heilbrigðum hjálparhönd, sýni hlýlegt viðmót og láti honum líða eins og jafningja. Að neita þessari mannlegu hegðan með því að segjast ekki fá borgað fyrir það lýsir bæði heimsku og mannfyrirlitningu. Og botnlausri eigingirni. Viljum við að peningahyggjan stjórni mannlegum samskiptum? Eða kjósum við að mannúðarstefna sé sjálfgefinn þáttur í samfélagi okkar? Kristur hefði sagt já. En greinilega segja ekki öll okkar það sama þótt yfir 90 prósent segjast vera í Þjóðkirkjunni. Hvað sem það segir okkur.

Ég verð þó að segja að ég mæti yfirleitt hlýju og hjálpsemi. Þó hitti ég eina og eina heimska sápukonu af báðum kynjum. Sem lætur mann finna að maður sé undirmálsmaður og fyrir neðan virðingu hennar eða hans að rétta hjálparhönd. Þetta komi viðkomandi bara ekkert við. Það er auðvitað hvorki hægt að skikka fólk til að vera manneskjulegt eða setja lög um framkomu. Slæm eða góð framkoma liggur í hjarta hvers manns. Og að mínu mati ræður félagslegur arfur þar miklu. Það sem ungur nemur, gamall temur.

Í kvöld borðaði ég á Hamborgarabúllunni. Trappan frá götunni er há en ég þrælaðist inn. Þegar ég ætlaði út lenti ég í miklu meiri vandræðum. Ég bað einn strákinn í afgreiðslunni að hjálpa mér og hann brást hratt og vel við. Þá sté fram sterklegur ungur maður úr kúnnaþvögunni og heimtaði að aðstoða mig. Ég rétti honum hendina nokkuð forviða og með hlýlegu viðmóti aðstoðaði hann mig fimlega niður á götuna. Hann kvaddi mig með kurteisi og elskulegheitum. Þegar hann sá furðusvipinn í andliti mér, sagði hann: „Ég er vanur að hjálpa mönnum sem eru lamaðir öðrum megin. Pabbi fékk heilaslag þegar ég var lítill.“

Skiljið þið nú hvað ég á með félagslegum arfi?

Ingólfur Margeirsson

Heilaheill notar vafrakökur til að bæta upplifun og greina umferð um vefinn.

Friðhelgisstillingar

Við notum vafrakökur til að skrá upplifun notenda vefsins svo við getum betur komið til móts við þá. Hér getur þú með einföldum hætti haft áhrif á þá virkni.

Vafrakökurnar hér að neðan eru nauðsynlegar svo vefurinn starfi eðlilega.

Þessi vafrakaka vistar stillingar notandans varðandi samþykki á vafrakökum á heilaheill.is
  • CookieConsent

Þessar kökur eru hluti af WordPress kerfinu.

  • wordpress_test_cookie
  • wordpress_logged_in_
  • wordpress_sec

Hafna öllum vafrakökum
Samþykkja allar vafrakökur