Hvernig getum við hjálpað fólki sem er nýbúið að fá slag?
Við sem höfum fengið slag, könnumst við þá einmanalegu tilfinningu að vakna upp á endurhæfingarspítala vitandi vart í þennan heim eða annan.
Með tímanum, þegar við náum áttum, sækja hugsanir að okkur, flestar óþægilegar; hvað verður nú um mig? Er ég sloppinn úr lífshættu? Get ég hrokkið upp af á hverri stundu? Fengið nýtt slag? Mun ég nokkurn tímann verða sá sami (sama) á nýjan leik? Hef ég misst sjálfa (n) mig? Verð ég fjölskyldunni til ama? Vill maki og börn taka aftur á móti mér? Er ég fær um að stunda mína gömlu vinnu? Verður mér sagt upp? Er ýmissi líkamsstarfsemi lokið? Er kynlífið ónýtt? Er ég orðin (n) geðveik (ur)? Er ekki best að ljúka lífinu strax?
Allir þeir sem hafa fengið slag kannast við þessar vangaveltur og þeim líkar. Og öll áttum við í erfiðleikum að ræða þessi málefni við hjúkrunarfólk, einkum lækna. Við vorum vön því, að hjúkrunarfólkið sinnti líkamlegu hlið okkar; tækju blóð, gæfu okkur sprautur og hjálpuðu okkur á salerni, sturtu og svoleiðis verkefni. Þessi aðstoð snerist fyrst og fremst um vanmáttugan líkama okkar. Fáir sinntu hinni andlegu líða. Sálfræðingur pínulítið en aðallega kynntumst við taugasálfræðingum sem lögðu fyrir okkur próf til að meta ýmsa hæfileika okkar. Þarna getum við, fyrrum rúmliggjandi sjúklingar, t.d. á Grensás, stigið inn.
Bandaríkjamenn hafa hannað kerfi sem byggir á hugtakinu „maður á mann.“
Það þýðir að einn fyrrverandi sjúklingur ræðir reglulega við einn núverandi sjúkling. Þar með getur nýkominn sjúklingur átt tækifæri á að opna sig við einstakling sem hefur sjálfur reynslu af ferlinu,. Og sá, sem veitir aðstoðina fær mikinn styrk og innsýn í eigin fortíð og bata. Kerfið hjálpar sem sagt báðum.
Slag er fjölskylduáfall. Það snertir alla tilveru hins sjúka. Þess vegna er nauðsynlegt að sá sem veitir aðstoðina að sækja fjölskylduna heim og ræða við fjölskyldu sjúklingsins. Einnig er mikilvægt að vera bækur saman við hjúkrunarfólk, hjúkrunarfræðinga, sjúkraliða og lækna. Streymi upplýsinga á milli aðila er alltaf af hinu góða. En fyrst og fremst fær sjúklingurinn tækifæri á að tjá sig við jafningja sinn en ekki háskólamenntaðra yfirmanna á sjúkrastofnunum. Við, fyrrum sjúklingar eftir slag, búum yfir dýrmætri reynslu.
Ingólfur Margeirsson, kynningarfulltrúi Heilaheilla.