
Mánudaginn 26. maí sl. var kynningarfundur um notendastýrða þjónustu í Hátúni 12, Reykjavík, sal Sjálfsbjargar á höfuðborgarsvæðinu undir heitinu: Notendastýrð þjónusta: Hugmyndafræði og framkvæmd Nokkrir fulltrúar Heilaheilla vou á fundinum, auk Þóris Steingrímssonar, formanns, voru þau Ingólfur Margeirsson, rithöfundur og sagnfræðingur, fræðslufulltrúi Heilaheilla, Gunnar Finnsson, rekstarhagfræðingur formaður Hollvinafélags Grensásdeildar og Margrét Sigurðardóttir, félgasfræðingur á Grensásdeild. Á fundinum var húsfylli og kynnti dr. Peter Anderberg hugmyndafræðina að baki notendastýrðri þjónustu og hvernig slík þjónusta hefur verið framkvæmd í Svíþjóð. Peter Anderberg er fræðimaður við háskólann í Lundi og meðlimur í Institute for Independent Living í Svíþjóð. Hann hefur sjálfur áralanga reynslu af notendastýrðri þjónustu. Lögðu fulltrúar Heilaheilla spurningar fyrir Peter, er hann svaraði skilmerkilega. Það er ljóst að félögum Heilaheilla er í mun að þessi umræða fari að taka á sig verklega framkvæmd og hefur þegar boðið Sjálfsbjörg fram þátttöku sína, er að henni kemur.