Stjórnin, sem var endurkosinn á seinasta aðalfundi, skipti þannig með sér verkum: Formaður, Gunnar Finnsson, varaformaður, Þórir Steingrímsson; ritari, Sigmar Þór Óttarsson,; gjaldkeri, Sveinn Jónsson; og meðstjórnandi Anna Geirsdóttir. Varamenn: Ásgeir B. Ellertsson og Baldvin Jónsson. Varamenn hafa setið stjórnarfundi og tekið fullan þátt í störfum stjórnarinnar. Jafnframt hefur stjórnin notið náinnar samvinnu við Stefán Yngvason, sviðsstjóra lækninga á endurhæfingasviði og annað starfsfólk á Grensásdeild.
Eins og fram kemur í lögum samtakanna er tilgangur þeirra að styðja við, efla og styrkja endurhæfingarstarfsemi þá, sem fram fer á Grensásdeild Landspítala Háskólasjúkrahúss eða í tengslum við þá starfsemi. Skal það gert með öflun fjár til þeirrar starfsemi og eins með því að vekja athygli á og hvetja til styrktar starfseminnar á opinberum vettvangi.
Langbrýnasta þörf Grensásdeildar er viðbótarálma, sem hýsa mundi sjúkra- og iðjuþjálfun en engu rými hefur verið bætt við á Grensásdeild siðan hún tók til starfa 1973. Síðan þá hefur þjóðinni fjölgað um meir en 40% og þeim sem endurhæfingar þurfa fjölgað enn meir. Samtökin gerðu það því að forgangsverkefni að finna leið til að viðbótarálmann mætti rísa og það sem fyrst. Þegar það mál væri komið í höfn mundu samtökin þá næst vilja leggja lið til að bæta aðstöðu eins og sjúkrarými og tækjabúnað sem og aðra aðstöðu fyrir sjúklingadeildarinnar.
Í skýrslu stjórnar á seinasta aðalfundi gætti bjartsýni því samtökunum hafði orðið nokkuð ágengt á fyrsta starfsári. Því er öfugt farið nú og eru ástæður þess raktar hér á eftir.
Fram kom á stofnfundi samtakanna að eðlilegt væri að leita eftir stuðningi við Grensásdeild til þeirra fyrirtækja, sem beinan ávinning hafa af starfsemi deildarinnar. Hollvinir Grensásdeildar hófu því viðræður í júni 2006 við Sjóvá um mögulega aðkomu félagsins til styrktar starfseminnar á Grensásdeild en það er hagur tryggingafélaga að endurhæfing sé sem skilvirkust því það hefur áhrif á bótagreiðslur. Stjórnendur Sjóvá sýndu þeirri málaleitan mikinn skilning og í apríl 2007 lýsti félagið sig reiðubúið að fjármagna byggingu viðbótarálmu við Grensásdeild, er hýsa mundi sjúkra- og iðjuþjálfun alla þar ásamt göngudeild. Sjóvá mundi jafnframt leggja fram 10 -15% af heildarkostnaðinum, þ.e. tugi milljóna króna, sem styrk til Grensásdeildar og leigja bygginguna LSH á sanngjörnu verði þar til ríkið tæki hana yfir að tilteknum árum liðnum. Endanlegar kostnaðartölur liggja ekki fyrir en reikna má með að árlegur kostnaður hins opinbera af þessari nauðsynja framkvæmd yrði ekki nema brot af vöxtum þeirra 18 milljarða króna sem nota á af hagnaði ríkisins af sölu Landssímans til byggingar nýs sjúkrahúss við Hringbraut. 24. apríl 2007 greindi stjórn HG síðan heilbrigðisráðuneytinu frá þessu góða tilboði. Afstaða heilbrigðisráðherra, Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, til málsins var mjög jákvæð eins og fram kom í umsögn hans í Morgunblaðinu þ. 1. júní 2007.
Eftir það hefur málinu ekkert þokað áfram að hálfu heilbrigðisráðuneytisins. Því er borið við að það sé flókið þar sem það er einn þáttur af mörgum í endurskoðun á því hvernig aðkomu
hins opinbera að heilbrigðisþjónustu almennt verði best hagað. Þá þurfi að taka grundvallarákvörðun um hvar endurhæfingarstarfsemi LSH á að fara fram í framtíðinni, þ.e. hvort það yrði á Grensásdeild eða annars staðar. Stjórnin hefur látið í ljós það álit þeirra sem dvalist hafa á Grensásdeild að þar sé besta staðsetningin. Það eitt að fara af spítaladeild í hið frjálsara andrúmsloft Grensásdeildar felur í sér mikinn andlegan hvata og vekur þá tilfinningu hjá sjúklingnum að fyrsta skrefið á framfarabraut sé stigið. Slíkur hvati er grunnur þess að endurhæfing takist.
Stjórnin bað ítrekað um fund með Guðlaugi Þór, heilbrigðisráðherra strax í fyrrasumar og fram á haust. Þeim beiðnum var ekki svarað fyrr en þ. 21. október sl. þegar hann lýsti sig reiðubúinn að hitta okkur. Stjórnin þáði það boð samdægurs og bað hann að nefna stund og stað. Því var ekki svarað og eftir enn ítrekaðar beiðnir var loks komið á fundi þ. 7. maí. Stjórnin taldi það góðan fund og lét ráðherra í ljós mikinn skilning á þörfum Grensásdeildar og vildi samráð við Hollvini Grensásdeildar. Hann þáði jafnframt boð um að koma og ávarpa þennan aðalfund. Ítrekuðum beiðnum skriflegum og í síma um að fá daginn festan hefur ekki verið svarað og aðalfundurinn dregist þar til nú en lögum samtakanna samkvæmt hefði átt að halda hann fyrir lok maí mánaðar. Hollvinum Grensásdeildar þykir þetta virðingarleysi ekki aðeins við samtökin heldur líka starfsemi Grensásdeildar. Stjórnin skilur að það gæti ekki lengur hentað ráðherra að koma á aðalfundinn. Hins vegar telur stjórnin það lágmarkskurteisi að samtökunum sé svarað. Öllu þýðingarmeira er að Sjóva hefur heldur ekki verið svarað, vel á öðru ári eftir að tilboð þess barst heilbrigðisráðuneytinu og eru því nú alveg eins líkur á að fyrirtækið sé fallið frá tilboði sínu og afar góðu tækifæri þar með glatað. Ekkert hefur orðið úr samráði ráðuneytisis við Hollvini Grensásdeildar.
Þessi mikli dráttur hefur valdið því að framkvæmdaáætlun samtakanna hefur farið úr skorðum enda ekki hægt að skipuleggja öflun fjármögnunnar til að styðja við meginstoðir starfsemi Grensásdeildar á meðan heilbrigðisyfirvöld draga eða vilja ekki eða geta ekki gert upp hug sinn um stöðu deildarinnar.
Vegna þess hvernig þetta mál hefur þróast leggur stjórnin til að aðalfundurinn samþykki eftirfarandi ályktun:
Aðalfundur Hollvina Grensásdeildar haldinn 2. júlí 2008:
Lætur í ljós vonbrigði og undrun yfir því að heilbrigðisráðuneytið hafi enn ekki
tekið á aðstöðuþrengingum Grensásdeildar og að tillögum um mögulega lausn, sem
ráðuneytinu barst í apríl 2007 hafi enn ekki verið svarað.
Á öðru sviði hefur þó vel tekist. Vitað er að aðgangur að tölvu örvar heilastarfssemi og viðbrögð sjúklinga og dregur ennfremur úr andlegri og félagslegri einangrun þeirra en eins og vitað er þarf mikill fjöldi sjúklinga að dveljast langdvölum á Grensásdeild. Fyrir milligöngu Hollvinanna ákváðu Flugstoðir sl. sumar að gefa og setja upp þrjár nýjar tölvur með borðum og prentara til afnota fyrir sjúklinga á Grensásdeild og hefur það reynst mjög vinsæl gjöf.
Stuðningur Sjóvá og Flugstoða við Grensásdeild er ómetanlegur og ber glöggt vitni um sterka samfélagslega ábyrgð þessara fyrirtækja.
Stefnt er að því að útbúa heimasíðu Hollvina Grensásdeildar en það hefur dregist á langinn og mun væntanlega gera það eitthvað enn því gerð og rekstur heimasíðunnar er kostnaðarsöm. Þangað til það gerist hafa samtökinn Heilaheill boðið aðgang að sinni heimasíðu, www.heilaheill.is og hefur það verið þegið með þökkum. Eins og á seinasta aðalfundi vill stjórnin varpa fram þeirri spurningu hvort einhver meðal Hollvinanna hefði áhuga á að koma að gerð og rekstri heimasíðunnar.
Virkir meðlimir Hollvina Grensásdeildar eru nú rösklega 100. Árgjaldið er 1.000- krónur og ætlar stjórnin að leggja til að það haldist óbreytt. Í sjóði samtakanna voru rúmar 500 þús. kr. um síðastliðin áramót en sjóðsstaðan er í dag tæpar 550 þús. kr..
Lög samtakanna mæla svo fyrir að aðalfundur samþykki starfsáætlun komandi árs. Hún er lítt breytt frá því í fyrra. Þar leggur stjórnin til að aðaláhersla verði lögð á að hrinda tillögu
Sjóvá í framkvæmd eða að sambærileg lausn verði fundin án frekari dráttar. Meðal annara verkefna, sem vinna þarf að er t.d. breyting yfir í sjúkraherbergi á því húsnæði, sem losna mundi ef bygging þjálfunnarálmunnar gengur eftir. Þá er mikil þörf fyrir háþróaðan, tölvuvæddan þjálfunarútbúnað, sem getur aukið árangur og afköst endurhæfingar; einnig má nefna ýmsan annan útbúnað, sem stuðlar að því sama og þar með eru taldir sérhæfðir hjólastólar. Þetta eru eðlilega verkefni, sem munu ekki aðeins ná yfir næsta ár heldur fleiri. En jafnframt á að leggja áherslu á mynda nýjar fjáröflunarleiðir fyrir samtökin.
Í lokin er svo rétt að rifja upp aftur hvers vegna eigi að styðja við og efla starfsemi Grensásdeildar. Svarið er einfalt, starfsemi deildarinnar er þjóðhagslega séð mjög arðbær. Um 70% allra sjúklinga eru á vinnufærum aldri. Sá hluti þeirra sem hverfur til starfa á ný greiðir með sköttum sínum á örfáum árum rekstrarkostnað Grensásdeildar árið sem þeir dvöldu þar. Þá er ótalinn sá þjóðhagslegi sparnaður sem felst í því að gera fólk sjálfbjarga á ný þó það nái ekki vinnufærni, aukþeirrar sjálfsvirðingar og þeim andlega styrk sem það veitir þeim sem þannig er ástatt fyrir. Eins og minnst var á í upphafi þessarar skýslu, síðan deildin tók til starfa 1973 hefur þjóðinni fjölgað um meir en 40% og þeim, sem endurhæfingu þurfa, hefur fjölgað hlutfallslega meir ekki síst vegna þess að nú bjargast fleiri úr slysum en áður sem og að meðalaldur hefur hækkað en samfara því er hærri tíðni heilablóðfalla. Samt virðist ríkja dráttur og stefnuleysi hjá hinu opinbera þegar kemur að því að bæta við rými deildarinnar enda er endurhæfing það svið heilsugæslu sem hefur búið við einna mest afskiptaleysi ríkisvaldsins.
Reykjavík, 2. júlí 2008