
Fyrsti laugardagsfundur HEILAHEILLA í vetur var haldinn í Rauða salnum dags. 03.10.2009 að Hátúni 12 og fundarsókn var góð að venju. Þórir Steingrímsson, formaður, flutti skýrslu stjórnar og sýndi fréttamyndir af Slagdeginum 2008, maraþonhlaupi Gunnlaugs Júlíussonar fyrir átakið „Á rás fyrir Grensás“ og af Sumarferð félagsins 2009. Allar þessar myndir er hægt að sjá undir hnappnum „Video“ hér á heimasíðunni. Þá var „Útvarp HEILHEILLA“ kynnt og Ingólfur Margeirsson flutti framsögu um stofnun þess og svaraði fyrirspurnum, en með honum í dagskrágerð eru þeir Birgir Henningsson og Guðni Már Henningsson. Vænst er mikils af þessu útvarpi. Þá las Sigríður Þorvaldsdóttir, leikkona, upp úr bók Flosa Ólafssonar og síðan flutti Steinunn Jakobsdóttir fróðlegt erindi um úrræði handa fötluðum.