Hver hefði trúað því að þegar fjölmennur ferðahópur HEILAHEILLA og HJARTAHEILLA heimsótti Vestmannaeyjar laugardaginn 18. júní 2011, að blíðskaparveður og logn væri uppi á Stórhöfða, Vestmannaeyjum, sem þekktur er um allan heim fyrir allt annað en veðurblíðu.
Hópurinn, allt að 90 manns, lagði af stað í tveimur stórum rútum frá Síðumúlanum í fallegu veðri. Af fréttum að dæma höfðu nokkrir áhyggjur af Landeyjahöfn, en svo þegar þangað var komið u.þ.b. 2 klst. síðar, þá komust menn að raun um að þær fréttir áttu ekki við rök að styðjast. Siglt var svo til Eyja með rúturnar um borð er tók ekki nema um 40 mínútur og allur viðurgerningur var góður. Skemmtilegar uppákomur voru í siglingunni og kátir voru þeir ungu Íslendingar er voru meðal sjófarenda, er léku við hvern sinn fingur. Meðal þeirra var landsliðsmaðurinn í handbolta, Björgvin Páll Gústavsson er söng og skemmti samferðamönnum sínum við góðar undirtektir. Þegar til Eyja var komið á snæddu ferðamenn á veitingastaðnum Kaffi Kró, ferðuðust um Heimaey undir leiðsögn heimamanna m.a. á Stórhöfða og snéru síðan til skips. Ferðin heim var ekki síður ánægjuleg og t.a.m. hélt Pálína Vagnsdóttir uppi fjörinu með söng og skemmtun og heimkoman var hin ánægjulegasta. Þakkar HEILAHEILL og HJARTAHEILL öllum þeim er gerðu þessa ferða að veruleika.