Vilný Reynkvist Bjarnadóttir er ötull félagi í HEILAHEILL, er fékk slag fyrir u.þ.b. 3 árum. Hún starfaði þá sem sjúkraliði og annaðist fólk. Hún segir að í fyrstu hafi sér verið brugðið og hætti störfum. Þá sagði hún að endurhæfingin hafi verið sér nokkuð erfið, “en þannig er það hjá öllum er verða fyrir áfalli.” En eftir að hún var búin að vinna sig að mestu úr því, sá hún ljósið í myrkrinu. Eftir endurhæfingu uppi á Grensás, fannst henni að hún gæti gert eitthvað meira. “Ég gerðist sjúkraliði þar sem ég hef þörf á því að láta gott af mér leiða, en hættan er sú að maður einangrist eftir svona áfall” sagði hún, “það er ekki minn stíll!”. Eftir að hún náði tökum á máli sínu, ákvað hún að taka á sig rögg og koma á fund hjá HEILAHEILL. “Þannig byrjaði það. Það gjörbreytti lífi mínu” sagði hún brosandi. “Félagið er ekki uppfullt af sjúkrasögum, raunarsögum eða barlómi slagþola, heldur hefur fólk líka mesta skemmtun af sínum erfiðleikum eftir áfallið, á jákvæðan hátt. Sumir tala bjagað mál, aðrir átta sig ekki á því hvað er verið að tala um o.s.frv. og það er bara hlegið að öllu saman og það er bara allt í lagi!
Þetta er voða gaman og allir eru svo jákvæðir. Þannig á lífð er vera.” Þá sagði hún einnig að félagið byði ekki bara upp á jafningjaeflingu á sínum reglulegum fundum, sem tilkynnt er um á viðburðadagatali heimasíðunnar, “heldur líka upp á félagslega samveru, sem er það mikilvægasta. Það myndast félagslegar heildir og tilfinningabönd, þar sem salgþolar og astandendur þeirra mynda kjarna, er salgþolar einir skilja.” Vilný varar alla slagþola við einangruninni, sem er auðvitað eðlilegur hluti af áfallinu, en hvetur alla að gerast félagar og sækja fundi. “Þetta hefur hjálpað mér óskaplega mikið, gjörbreytt lífi mínu og annarra, – því áfall er ekki endirinn” sagði hún að lokum og brosti.