“Við sem höfum fengið slag, heilablóðfall eða blæðingu í heila, vitumað það er mikil reynsla, bæði hvað varðar tilfinningarnar og taugakerfið. Þetta er mikið áfall og framtíðarplön breytast vegna persónuleikaröskunar sem maður verður fyrir. Það verður algert hrun á lífskeðjunni.” sagði Axel Sigurðsson, er fékk slag í september 2011. “Þá er manni tilkynnt af læknum, er hafa rannsakað og annast mann, að það eina sem hægt er að gera í stöðunni til lækninga sé að fara erlendis sem fyrst og láta á það reyna að komast aftur til einhverrar heilsu. Það er ekkert val og maður fer í þetta. En mörg ljón verða á veginum, sem ekki var greiðfær fyrir.” Axel var rólegur og yfirvegaður er hann ræddi um þetta. “Þegar ég læt hugann reika sé ég að þarna hefði verið hægt að bæta um t.d. með því að sjúklingar ættu kost á því að leita til sérstakrar aðstoðarmanneskju, sem hefur reynslu og þekkingu í undirbúningi slíkra ferða og gæti hjálpað sjúklingnum og séð um allt, hvað ferðinni viðkemur. Sjúklingar eru misjafnlega vel á sig komnir eftir áfallið og ég tel að flestir séu komnir með þunglyndi og kvíða og eru hvorki í andlegu eða líkamlegu ástandi, til að sjá um þau atriði í kerfinu er þarf að sinna.”
Axel fór á Karólínska sjúkrahúsið í Stokkhólmi í desember sama ár. “T.d. þurfti ég að panta flugfarseðlana sjálfur með miklum útskýringum, þó svo að Sjúkratryggingar Íslands greiði þá í lokin. Ég varð að útvega mér fylgdarmann, sem var sonur minn. Þetta var erfitt fyrir hann líka, því hann þurfti að fá frí úr sínu starfi til að fylgja slagþola. Hann þurfti líka að sinna sínum einkamálum áður, koma börnum í fóstur o.s.frv. Og það komu upp óvæntar uppákomur t.d. fjárhagslegar, svo sem lyf sem þarf að nota að staðaldri og jafhvel ný lyf vegna ferðarinnar. Síðan þurfti að gera ráðstafanir heima fyrir t.d. með keyrslu út á flugvöll og sækja við heimkomu. Einnig þurfti ég að panta hótel í Svíþjóð fyrir mig og fylgdarmanninn. Svo þegar til Svíþjóðar kom þurfti að komast frá flugvellinum á hótelið, svo frá hótelinu á sjúkrahúsð. Allan kostnaðinn, nema flugfarseðlana, þurfti ég að leggja út fyrir og greiða úr eigin vasa, því dagpeningar eru ekki greiddir fyrr en eftir heimkomu.” Axel var nokkuð hugsi. “Og þá er það yfirlitið um hvernig fór. Það mun vera íslenskur hjúkrunarfræðingur í Svíþjóð er hjálpar ýmsum landanum, ef eftir því er leitað. En í mínu tilfelli var hún í jólafríi á Íslandi. Ég þurfti sjálfur að sjá um farmiðapöntunina og hótelgistingu í Svíþjóð og hafði engan nema son minn sem fylgdarmann og deildum við því sama hótelherbergi á meðan dvölinni stóð. Af flugvelli í Svíþjóð að Hótelinu fórum við með strætisvagni í sparnaðarskyni, sem enginn ætti að gera. Það var kalsaveður og snjóhraglandi og við með töskur. Annars fórum við í leigubílum sem við tókum nótur fyrir eftir það. Eg var eina nótt á sjúkrahúsinu og þurfti að greiða líka fyrir hótelið þá nótt, því ekki var hægt að flytja fylgdarmarmanninn. Það gleymdist að segja mér frá því þegar ég pantaði hótelið, að engin kvöldmatur væri framreiddur um helgar og þar sem við komum út á sunnudegi, þurftum við að ganga að næstu bensínstöð er seldi samlokur” Axel brosti og gerði grín að þessu.
Hann tók undir með félögum sínum að HEILAHEILL ætti aðkomu að sjúklingum og aðstandendum þeirra starax eftiráfallið. “Margt af þessum erfiðleikum hefði ég losnað við ef ég hefði haft einhvern aðstoðaraðila mér til hjálpar. Það sem er manni létt þegar maður er frískur, getur tekið mjög á þegar maður er veikur og vanmáttugur á ferð í ókunnu landi. Mér fannst ég verða fyrir óþarfa þrengingum í þessari ferð. Ef faglegur ferðaráðgjafi hefði verið til staðar held ég að allt hefði verið léttara fyrir mig og allt gengið betur. En við erum sjúklingar.”