Nú á dögunum var formaður HEILAFÉLAGSINS í Færeyjum, Bjarne Juul Petersen, staddur hér í einkaerindum og leit við á skrifstofu félagsins í Síðumúla 6 og hafði tal af Þóri Steingrímssyni, formanni HEILAHEILLA. Ræddu þeir m.a. um aukin samskipti Færeyja og Íslands, þá innan norrænu samtakanna SLAGFORENINGER I NORDEN [Stroke Associations in the Nordic Countries]. Kvað hann fulltrúa félagsins á ráðstefnu samtakanna í Osló fyrr á þessu ári hafa verið mjög áhugasama um að efla samskipti við Norrænu samtökin. Bjarne lýsti áhuga sínum að auka samskipti við Ísland og einnig að félagsmenn sínir hefðu áhuga á að heimsækja Ísland í því augnamiði að efla endurhæfingarþátt sinn, en eftir því sem hann sagði að þá er hann í algjöru lágmarki hjá frændum vorum þarna ytra. Þá taldi hann að Færeyjingum yrði frekar ágengt í samskiptum sínum við HEILAHEILL, en við önnur félagasamtök á Norðurlöndum. Bað hann svo um kveðju til félagsmanna HEILAHEILLA.