Eins og áður hefur komið fram þá hefur HEILAHEILL, í samráði við yfirstjórn Landspítalans, ákveðið að vera á Taugadeildinni B2 í Reykjavík, alla þriðjudaga frá kl.14-16, fram að áramótum. Nú þegar er félagið með fasta viðveru á Grensásdeild og hefur hún gefið góða raun. Er þetta gert með það að augnamiði að veita slagsjúklingum (heilablóðfall), sem og aðstandendum, upplýsingar um félagið og fyrir hvað það stendur. Eftir það verður þetta endurskoðað, með lagfæringar að leiðarljósi ef þess gerist þörf. Þeir Þórir Steingrímsson og Axel Sigurðsson, sátu fyrstu viðveruna í dag á B2 og dreifðu bæklingnum “Við erum hér fyrir þig” og vakti hann mikla athygli, bæði sjúklinga og aðstandenda. Starfsfólk B2 sýndi þessu ekki síður áhuga og var fulltrúum félagsins mjög vel tekið. Lofar þessi viðvera mjög góðu og er hún fín viðbót við starfsemi félagsins og vonast er til að hún verði víðar um land.