Þó svo að fjárhagsstaða HEILAHEILLA sé bágborin um þessar mundir, er hugur í mönnum. Aðalfundur félagsins var haldinn fyrir fullu húsi með beinni tengingu við félaga á Akureyri, ersátu í veitingahúsinu Greifanum, Glerárgötu 20, Akureyri. Í upphafi fundar bauð Þórir Steingrímsson, formaður, fundarmenn velkomna. Að því loknu var Gísli Ólafur Pétursson kosinn fundarstjóri og Særún Harðardóttir, fundarritari. Eftir að aðalfundur hafði samþykkt skýrslu formannsins og framlagningu Þórólfs Árnasonar, gjaldkera, á endurskoðuðum reikningum félagsins, var kosin ný stjórn. Hana skipa Þórir Steingrímsson, formaður, Hildur Grétarsdóttir, gjaldkeri, Særún Harðardóttir, ritari, Albert Páll Sigurðsson, Edda Þórarinsdóttir og Páll Árdal í aðalstjórn, Ólöf Þorsteinsdóttir og Axel Sigurðsson í varastjórn.
Formaðurinn kynnti nöfn þeirra er gáfu sig í að vera talsmenn málefnahópa HEILAHEILLA og lagð til að þeirra væri óskað í þau störf og var það samþykkt af aðalfundi. Nokkrar fyrirspurnir voru lagðar fram og síðan fengu fundarmenn sér kaffiveitingar, sem ekki voru af verra taginu, enda er kaffihópurinn ein af kjölfestum félagsins. Eftir það kynntu þeir Dr. Þorleifur Friðriksson og Encho Stoyanov ferð til Búlgaríu, sem er kynnt hér á heimasíðunni. Var það afar fróðlegt erindi og tilhlökkunarefni fyrir þá sem ætla að slást í hópinn. Þá kynnti Edda Þórarinsdóttir málþing sem á að halda í Borgarleikhúsinu 4. mars nk.. Að því loknu héldu fundarmenn ánægðir heim.