Laugardaginn 8. Júní 2013 héldu félagar HEILAHEILLA og HJARTAHEILLA á Njáluslóðir í Fljótshlíð. Fararstjórn var ekki af verri endanum, þar sem hún var í traustum höndum Bjarna Eiríks Sigurðssonar, félaga í HEILAHEILL, er býr að Torfastöðum, Fljótshlíð. Fór hann með ferðalanga er voru hátt í 70 manns um fornar söguslóðir og var bók hans „Njálssaga, persónur og leikendur“ kynnt á skemmtilegan hátt af Sigurði Hróarssyni, staðarhaldara á sýningarsetrinu. Þessi ferð var afar merkileg og eftirminnileg í alla staði, – ekki bara fyrir það að menn fræddustmeira um hinar fornu bókmenntir, heldur líka voru veitingarnar er Bjarni og dóttir hans Kristín Bjarnadóttir veittu ferðalöngum, hinar rausnarlegustu.
Ekki sleppti Bjarni ferðalöngum, fyrr en hann hafði leyst þá út með boði á konunglegri kvöldmáltíð á veitingastað ELDHESTA við Hvergerði í lokin, en fyrirtækið er í eigu hans og sona hans. Gestrisnin og veitingarnar voru samboðnar fimm stjörnu gæðum hér á landi! Þökk sé Bjarna og afkomendum hans fyrir eftirminnilega ferð!