Go Red framundan um næstu helgi!

HEILAHEILL tekur þátt í fræðsluátaki er varðar hjartaskúkdóma er geta leitt til slags, þ.e. heilablóðfalls.  Samkvæmt rannsóknum Hjartaverndar eykst tíðni áhættuþátta hjá konum eftir 50 ára aldur, eins og hár blóðþrýstingur, hátt kólesteról, sykursýki og ofþyngd. Með hollu mataræði og reglubundinni hreyfingu má minnka líkurnar á flestum áhættuþáttum hjarta- og æðasjúkdóma. Eins efa ég ekki að margar konur sem lesa þetta eru í eftirliti hjá lækni og jafnvel á lyfjum til að hafa stjórn á kólesteróli og háþrýstingi. Þrátt fyrir lyfjatöku vegna ofangreindra áhættuþátta þá er mikilvægt að hreyfa sig og borða hollan mat samhliða.

Er einhver þörf fyrir GoRed átakið?

Svarið er einfaldlega já. Því;

  • Flest sem vitað er um einkenni, greiningu og meðferð hjartasjúkdóma byggir á rannsóknum þar sem karlmenn hafa verið þátttakendur en ekki konur. Af 62 rannsóknum á hjarta- og æðasjúkdómum sem birtar hafa verið í vísindatímaritum frá árinu 2006 hafa konur aðeins verið þátttakendur í 33,5% tilfella.

  • Flestar konur á Íslandi deyja vegna hjarta- og æðasjúkdóma og eru þessir sjúkdómar algengasta dánarorsök kvenna eftir fimmtugt.

  • Konur hafa oftar óljósari einkenni en karlar vegna hjartasjúkdóms og bíða lengur með að leita sér hjálpar vegna brjóstverkja.

  • Meðferð kransæðasjúkdóms hjá konum getur verið vandasamari en hjá körlum.

  • Konur gera sér ekki grein fyrir eigin áhættu og telja aðra sjúkdóma meiri ógn við heilsu sína.

Þrátt fyrir ofangreindar staðreyndir er bjart framundan og engin ástæða til að örvænta því GoRed dregur fram ofangreindar staðreyndir og fræðir konur um áhættuþætti og einkenni hjarta- og æðasjúkdóma og hvernig draga má úr líkum á þessum sjúkdómunum.

Áhættuþættir hjarta- og æðasjúkdóma

Þegar talað er um áhættuþætti hjarta- og æðasjúkdóma er yfirleitt verið að vísa í neðangreinda þætti;

• Reykingar. Konur auka áhættu sína verulega með því að reykja.

• Sykursýki. Kona með sykursýki er í 4 – 6 meiri áhættu á að fá kransæðasjúkdóm.

• Blóðfituröskun.

• Háþrýstingur.

• Ættarsaga um kransæðasjúkdóm.

• Ofþyngd.

• Hreyfingarleysi.

• Aldur.

Hvað get ég gert til að halda hjarta mínu heilbrigðu?

Það er margt sem þú getur gert og það besta er að um leið og þú hugar að hjartaheilsu þinni eflir þú um leið varnir gegn öðrum sjúkdómum eins og krabbameini og þunglyndi.

Mayo Clinicin í Bandaríkjunum hefur sett fram 5 lyfjafríar leiðbeiningar sem eiga svo sannarlega vel við okkur íslenskar konur.

  • Ekki reykja eða nota tóbak, það er aldrei of seint að hætta.

  • Hreyfa okkur í 30 mínútur helst alla daga vikunnar.

  • Neyta hollrar fæðu;

  • Borða meira af ávöxtum, grænmeti (5 skammta á dag)

    • Borða meira af grófu kornmeti (30 g af trefjum á dag).

    • Forðast fituríka fæðu s.s. rautt kjöt, feitar mjólkurafurðir, djúpsteiktan mat, bakkelsi, snakk, smjörlíki.

    • Borða fisk að minnsta kosti tvisvar í viku.

    • Taka inn þorskalýsi eða annan D vítamíngjafa.

    • Nota salt í hófi en ekki er mælt með meiri neyslu en 1 tsk á dag.

  • Viðhalda kjörþyngd

  • Líkamsþyngdarstuðull/BMI á að vera undir 25 kg/m2

  • Einnig er gott að miða við að mittismál verði ekki meira en 88 sm.

  • Fara í reglubundið eftirlit þarsem þú lætur mæla:

  • Blóðþrýsting, en æskileg er að hann fari ekki yfir 135/85

  • Blóðfitu (kólesteról), en heildarkólesteról á ekki að vera yfir 5 mmó/L. Einnig þarf að skoða samspil góða kólesterólsins (HDL) og þess slæma (LDL) og þríglýseríða. Þessa undirþætti kólesteróls þarf alltaf að mæla í fastandi blóðprufu.

  • Blóðsykur.

Leiðin fram á við – konur hafa mikil áhrif.

Tilgangur GoReds átaksins er auk fræðslu að hvetja okkur konur og efla á jákvæðan og skemmtilegan máta. Svo sannarlega hefur mikið unnist á s.l. 25 árum í baráttunni við hjarta- og æðasjúkdóma og hefur dánartíðnin vegna kransæðasjúkdóma minnkað um 80% meðal kvenna og karla. Það er einstakur árangur en þó er mikilvægt að draga fram að það sem ræður mestu um þessa minnkun eða þrír fjórðu, eru heilbrigðari lífshættir okkar Íslendinga. Við reykjum minna en við gerðum og höfum lækkað kólesterólið með því að borða hollari mat sem inniheldur minni af mettaðri fitu. Við hreyfum okkur einnig meira í frítíma og lifum heilbrigðara lífi í heildina. Rekja má 25% af þessari lækkun á dánartíðni til bættra meðferðarúrræða með aðgerðum og lyfjum.

Þessi jákvæða þróun er samspil margra þátta eins og aukinnar fræðslu en ekki síður því að við konur á Íslandi sem stýrum oftar en ekki innkaupum og matargerð á heimilum okkar höfum tekið til okkar ofangreindar ráðleggingar. Við eldum hollari mat og erum börnum okkar jákvæð og góð fyrirmynd í heilbrigðum lífsháttum.

Hjartans konur ég hvet ykkur; mæður, dætur, systur, frænkur, ömmur, vinkonur og allar hinar til að halda áfram á sömu braut en gleyma samt ekki ykkar eigin heilsu, því víst er að samtaka getum náð enn betri árangri. Konur lengi lifi!

Heilaheill notar vafrakökur til að bæta upplifun og greina umferð um vefinn.

Friðhelgisstillingar

Við notum vafrakökur til að skrá upplifun notenda vefsins svo við getum betur komið til móts við þá. Hér getur þú með einföldum hætti haft áhrif á þá virkni.

Vafrakökurnar hér að neðan eru nauðsynlegar svo vefurinn starfi eðlilega.

Þessi vafrakaka vistar stillingar notandans varðandi samþykki á vafrakökum á heilaheill.is
  • CookieConsent

Þessar kökur eru hluti af WordPress kerfinu.

  • wordpress_test_cookie
  • wordpress_logged_in_
  • wordpress_sec

Hafna öllum vafrakökum
Samþykkja allar vafrakökur