Sumarferð HEILAHEILLA 2016 var farin frá höfuðstöðvum félagsins að Sigtúni 42, Reykjavík að morgni laugardagsins 13. ágúst. Fararstjóri var Bjarni Eiríkur Sigurðsson og var hann óþrjótandi viskubrunnur um staðhætti, menn og málefni Njálu. Ekið var til Selfoss, þar sem Björn Ingimarsson mjólkurfræðingur hjá Mjólkurbúi Flóamanna (MS) tók á móti ferðalöngunum, fræddi þá um framleiðsluna og lét þá hafa skyrvörur til að sanna sitt mál. Síðan var haldið til Sögusetursins að Hvolsvelli, þar sem Sigurður Hróarsson, forstöðumaður Njálusafnsins tók á móti fólkinu og flutti fyrirlestur um Njálu á meðan það gæddi sér á súpu og brauði. Síðan var ekið um sveitir, m.a. að Berþórshvoli og þaðan að Torfastöðum, þar sem boðið var upp á kaffi og með því. Að lokum var svo ekið til Reykjavíkur og flutti formaðurinn, Þórir Steingrímsson, smá tölu um nýja Heila-appið og félagið og var það einrómur ferðalanganna að þetta hafi verið ein hin besta ferð.
|