Á nýju ári, jafnvel er þú lest þessar línur þá eru 2 einstaklingar að berjast fyrir lífi sínu, – þá í dag vegna heilaslags.
Tölur sýna að hér á landi séu um 700 manns sem fá þetta á ári og það getur enginn lýst þeirri tilfinningu þegar barist er upp á líf og dauða þegar heilablóðfallið ríður yfir, nema þeir sem verða fyrir því. Ekkert áfall er eins og það er eins frábrugðið eins og mennirnir eru margir og því miður eru sumir mismunandi undir það búnir, en það fer eftir því hvernig þeir fara með heilsuna frá degi til dags.
Sumir deyja en aðrir eru heppnir og lifa það af, geta tekið aftur þátt í atvinnulífinu eins og ekkert hafi í skorist, en aðrir búa við varanlega örorku og endurhæfingin er því mismunandi,- en það þýðir ekki að þeir séu dæmdir út leik. Gott líferni dregur úr áhættuþáttum og eykur möguleika á betri og skjótari endurhæfingu.
Heilaheill vinnur að velferðar- og hagsmunamálum þeirra sem hafa orðið fyrir skaða af völdum heilaslags, þá sérstaklega fyrir þá sem eftir lifa og búa við breytta aðstöðu vegna einhverskonar annmarka og lömunar. Það samanstendur af sjúklingum, aðstandendum og fagaðilum og er áhuga hafa á málefninu.
Allt frá því að starfsemi félagsins var efld árið 2005 og þegar heimasíða þess var opnuð, hefur það látið til sín taka á vettvangi Sjálfsbjargar, Hollvina Grensásdeildar og Samtaugar. Þá hefur það einnig tekið þátt í kynningarstarfsemi á vegum félagasamtaka, fyrirtækja, Háskóla Íslands og verið með virka 10 málefnahópa, er hafa skilið eftir sig eftirtektarvert starf, m.a. styrktarsjóðinn Faðm. Þá er félagið einnig með opna fræðslu,- og félagsfundi fyrir almenning, þá fyrsta laugardag hvers mánaðar sem hægt er að fylgjast með á viðburðardagatali heimasíðunnar.
Margir félagsmenn, m.a. þingmenn, rithöfundar, leikarar, ljósmyndarar, framkvæmdastjórar, læknar, lögreglumenn, hjúkrunarfræðingar o.fl. er hafa orðið fyrir áfalli og eru komnir aftur út í atvinnulífið, hafa tekið fullan þátt félagsstarfinu með áhrifaríkum árangri. Hafa þeir hvatt þá sem orðið hafa fyrir heilaslagi með slagorðum félagsins „Áfall er ekki endirinn“ og „Þetta er ekki búið“ og þeir eiga miklar þakkir skilið, sem er hér með komið á framfæri.
Á komandi ári má búast við fjárhagslegri aðhaldssemi félagsins og hefur stjórnin þegar brugðist við, en enginn breyting verður á starfseminni og haldið verður áfram á sömu braut.
Vil ég því óska öllum landsmönnum gleðilegs nýárs, með þökk fyrir hið liðna!
Þórir Steingrímsson
Formaður Heilaheilla