Félagar Heilaheilla og gestir fylktu liði í rútu að Hátúni 12, laugardaginn 12. ágúst s.l. Góð þátttaka var og veður var hið ákjósanlegasta. Lagt var af stað að morgni og á leiðinni austur bauð formaður Heilaheilla alla velkomna og bað þá vel að njóta. Sól skein í heiði og fjallahringurinn sem og útsýnið til Eyja skilaði sinni fegurð á Kambarúninni. Greint var frá sögulegum staðháttum á leiðinni s.s. Kögunarhóli, Þuríði formanni og Kambsráninu o.s.frv.
Þegar á Sögursetrið kom tók Ólöf leiðsögumaður við og þar sem hún er fyrrverandi kennari og uppalin á söguslóðum, skorti hana ekki þekkingu á staðháttum er var komið vel til skila. Það var gott veður á Hlíðarenda, þegar hún las upp úr Njálu og var ekki laust við að það losnuðu úr læðingi ýmsar minningar, sem menn höfðu gert sér um atburðina þar hér til forna. Margir viðstaddir gerðu létt gaman að því að þeir hefðu gleymt ýmsu, er rifjaðist upp við lesturinn og þá báru menn saman nútíð og fortíð. Hér til forna voru menn ekki að flækja málin er kom að hjúskaparslitum. Málinu lýst í votta viðurvist og þar með búið! Engar lagaflækjur. Þá var öldin önnur, en menn voru á því að taka þetta aftur upp! Ferðalangar skoðuðu einnig minnisvarða myndhöggvarans Nínu Sæmundsdóttur, er gerði garðinn frægan í New York á síðustu öld, en hún var fædd í Fljótshlíðinni. Eftir að hópurinn hafði nærst á Kaffi Langbrok, hélt hann niður að Berþórshvoli, þar sem fararstjórinn las kvæðið “Guunnarshólmi” og lýsti nátturunni eins og hún blasti við ferðalöngum. Síðan var haldið á Sögusetrið og þar gátu ferðalangar skoðað sýningu er byggðist á sögu héraðsins frá fornum tímum. Síðan var haldið til Reykjavíkur og áðu menn á leiðinni með viðkomu að Hestheimum. Þar fengu þátttakendur að gæða sér á rammíslenskum bakstri, undir kjörorðum Hnallþóru í “Kristnihaldi undir Jökli”, eftir Halldór Kiljan Laxness: “.. það þykir ekkert fínt undir 17 sortum…”. Í ferðinni voru erlendir gestir sem áður var greint frá hér á heimasíðunni, læknahjónin Rymer, er komu með flugi til landsins þá um morguninn. Kom í ljós að þekking þeirra á sögu okkar var til staðar og fylgdust þau með athygli með aðstoð starfsbróður þeirra og stjórnarmanns Heilaheilla, Alberts Páls Sigurðssonar, sem túlkaði það sem fram fór. Að lokum var þeim Birgi Henningssyni, Kristjáni Eiríkssyni og Bergþóru Annasdóttur þakkað, en þau stóðu að undirbúningi og framkvæmd þessa ferðalags.