10 ára ráðstefna GO RED átaksins hér á landi var haldin í Hörpu 1. febrúar s.l. fyrir fullu húsi, þar sem rauðklæddar konur voru í meirihluta. Þórdís Jóna Hrafnkelsdóttir, hjartalæknir reið á vaðið og fræddi ráðstefnugesti um áhættuþætti og meðferð við ætlaðri hjartaveiki kvenna. Fylgdu þær Helga Margrét Skúladóttir, hjartalæknir; Ingibjörg Hreiðarsdóttir, yfirljósmóðir; Unnur Valdimarsdóttir, prófessor í lýðheilsuvísindum; Stefanía Sigurðardóttir; Sigrún Geirsdóttir; Saga Garðarsdóttir, uppistandari á eftir. Allir fyrirlestrarnir höfðuðu til stöðu kvenna og áhættu í að fá hjartaáfall. Fulltrúar Heilaheilla á ráðstefnunni voru þau Kolbrún Stefánsdóttir, stjórnarmaður og Þórir Steingrímsson, formaður. Þá var Ingibjörg Pálmadóttir fv. ráðherra verndari átaksins viðstödd.