Fimmtudaginn 17. október kom fjöldi fólks á fund að Hæðargarði 31, um bókina Sjávarföll, um ættarsögu fimm kynslóða er glímdu við arfgenga heila-blæðingu. Persónur birtast okkur í því umhverfi og að-stæðum sem þær lifðu við samkvæmt þeim ríkulegu heimildum sem höfundur byggir söguna á. Frásögnin er sett fram á þann hátt að hún endurspeglar tíðaranda hverrar kynslóðar. Fjölskyldusagan nær allt frá fyrri hluta nítjándu aldar til seinni hluta tuttugustu aldar. Þetta er saga um líf fólks sem lifði þétt saman á hrjóstrugum eyjum Breiðafjarðar og í einangruðum sveitum Vestfjarða. Fólk sem lifði af því sem landið og sjórinn gaf. Lífið í höfuðstaðnum og víðar um landið kemur við sögu þegar fram líður. Hér er fjölskyldusaga ættar þar sem arfgeng heilablæðing tók sig upp þegar komið var fram á tuttugustu öld. Ættardraugur sem felldi fjölmarga einstaklinga í þremur ættliðum – allt fólk í blóma lífsins. Sagan segir frá upplausn fjölskyldna og afleiðingum sem ættarmeinið olli. Eftir erindi Emils B. Karlssonar, flutti Guðni Th. Jóhannesson sagnfræðingur, og fyrrverandi forseti Íslands nokkur orð. Guðni er af þeirri ætt sem fjallað er um í bókinni. Dr. Ástríður Pálsdóttir sameindalíffræðingur útskýrði arfgenga heilablæðingu, sem hefur erfst innan Krossættarinnar og gaf yfirlit yfir aðrar ættir sem þessi sjúkdómur hefur herjað á. Hún þróaði genapróf fyrir sjúkdóminn árið 1988. Að lokum greindi Fjóla Arndórsdóttir, sem varð sem ungabarn fyrir móðurmissi vegna arfgengrar heilablæðingar, sagði frá lífi afkomanda í óvissu um arfgengi. Sjálf kvaðst hún hafa farið í rannsókn og fengið þá niðurstöðu að hún væri ekki með þetta arfgen.