Ég fékk verkefni að vinna úr
Ég var staddur í eldhúsinu, árla morguns, er áfallið dundi yfir. Drakk morgunkaffið og fletti Morgunblaðinu, sem var nýkomið inn um lúguna. Að vísu hafði ég deginum áður leitað læknis, vegna flökurleika, höfuðverkjar og svima, en hann taldi enga hættu á ferðum og hugðist senda mig í jafnvægismælingu nokkrum dögum seinna, svo ég hafði engar áhyggjur. Ég tók sunddótið og var í þann veginn að standa upp, þegar mig svimaði. Ég hugðist harka af mér og koma mér í sund, sem hafði alltaf gert s.l. 20 ár, var með þeim fyrstu á morgnanna er biðu fyrir utan laugarnar eftir því að þær voru opnaðar. Þegar flökurleikinn kom aftur þá hikaði ég við að fara og lagði mig aftur inn í rúm og forðaðist að vekja konuna, sem tókst ekki. Hún vaknaði og spurði af hverju ég væri ekki kominn í sund, en þegar hún leit á mig sá hún hvernig ástandið var og hringdi strax á Neyðarlínuna. Þegar áhöfn sjúkrabílsins gerði á mér athuganir kváðu þeir öruggara að flytja mig á Slysavarðstofuna til frekari rannsóknar. Ég reis upp úr rúminu og leiðinni út þá svimaði mig meira, sem varð til þess að ég var lagður í sjúkrabörur. Þá áttaði ég mig á að ekki var allt með felldu og fór ekki að standa á sama.
Slysavarðstofan.
Á leiðinni á spítalann var ég rannsakaðurfrekar og þá fann égtil höfuðverkjar og spjó eins og múkki. Nokkrir læknar og hjúkrunarlið tóku á móti mér og ég var lagður á sjúkraborðið, undir því ljósi sem ég hafði nokkrum misserum áður notað í mínu starfi við að skoða einstakling, sem hafði lent í hremmingum. Og þarna var ég kominn og nú í allt öðru hlutverki. Læknarnir spurðu mig um sjúkrasöguna og eftir að ég hafði sagt skilmerkilega frá, töldu þeir að þetta gæti verið “innra eyrað” eða yfirvofandi heilablóðfall. Ég spurði þá hvað það þýddi, en þeir sögðu of snemmt að segja til um það. Þegar uppköstunum linnti ekki þá sá ég á þeim að þeir voru að sjá eitthvað sem þeir voru ekki vanir. Yfirleitt voru þeir vanir að taka á móti fólki sem hafði verið búið að fá heilablóðfall, lífs eða liðið, en ekki að sjá þetta gerast í “beinni útsendingu”, ef svo má að orði komast. Ég var með fullri meðvitund og reyndi að fylgjast með því sem fram fór, en þeir gáfu mér eitthvað verkjastillandi. Síðan báðu þeir mig að vera vakandi og segja þeim aftur sjúkrasöguna. Ég gerði það samviskulega á milli uppkastanna og spurði þá um leið um heilablóðfall, hvað það þýddi. Þeir sögðu það hreinskilningslega að þeir vissu ekki hversu langt það gengi, ef um það væri að ræða og báðu mig að segja sjúkrasöguna aftur! Ég áttaði mig ekki á því fyrr en eftir á, að þeir voru að kanna hvort ég væri beinlínis að fjara þarna út fyrir framan þá, bæði andlega og líkamlega. Þeir byrjuðu að pikka í mig, athuga ósjálfráðu viðbrögðin, skoða inn í eyrun, augnbotnanna, láta mig fylgja fingrum sínum eftir og spurðu hversu margir þeir væru o.s.frv.. Þá tók ég eftir því að ég fór að lamast á hægri handlegg og fótlegg og sagði þeim það. Þá sendu þeir mig í sneiðmyndatöku af höfðinu. Ég var ósáttur við að lamast á hægri hlið og byrjaði að streða á móti í von um að halda mætti með því að hreyfa útlimina. Ég reiddist lítillega og trúði því ekki að ég væri að drepast þarna og við því væri ekkert að gera. Þess vegna var á ákveðinn í að ég fær ekki fyrrhafnarlaust og hamaðist á móti lömuninni. Ég bjóst eins við því að lamast líka á vinstri hlið og þá fannst mér eins og þá sigi á ógæfuhliðina. Eftir sneiðmyndatökuna sögðu þeir að sennilega væri ég með blóðtappa sem torveldaði blóðflæði í vinstra heilahveli er ylli þessari lömun og þeir ætluðu að gefa mér sprautu með efni sem ég herði nefnt “skyndiblóðþynningu”. Eftir hana fann ég að einhverju ástandi linnti og einn læknirinn sagði að nú þyrfti ég ekki að hafa áhyggjur, þetta gengi ekki lengra og ég gæti farið að sofa.
Verkefnið.
Þegar ég vaknaði morguninn, rifjaði ég upp gærdaginn. Ég þóttist heppinn að vakna yfirleitt og draga andann. Ég var lamaður hægra megin frá öxl og niður og að sjálfsögðu fannst mér það skítt, en fyrst að svona fór, þá var bara að taka því! Ég fékk þarna sem sagt verkefni ril að takast á við, sem enginn getur hagnast meira á en ég sjálfur. Ég fékk að vita það á síðari stigum, þegar ég var að krafla mig áfram fyrst í hjólastól í u.þ.b. hálfan mánuð, að ég hefði fengið blóðtappa á þeim stað sem olli farlömun á hægri hlið og jafnvægiskerfið væri úr skorðum. Markmiðið var sett, upp úr stólnum skyldi ég komast og lengra ef þörfkrefði.
Enduhæfingin.
Upp úr hjólastólnum sté ég eftir 3 vikur og var í stuttan tíma í hjólagreind, en byrjaði svo að ganga með veggjum og hækjur í u.þ.b. mánuð. Eftir það þóttist ég bara góður að geta staulast áfram einsamall. Þökk sé því lækna- og hjúkrunarliði, sjúkra- og iðjuþjálfum sem Grensásdeild hefur á að skipa, sem og öllu öðru starfsfólki er vinnur sjáanlega afrek við frekar þröngar aðstæður. Mér skilst að það standi til bóta.
Skilaboðin.
Þau eru einföld. Þetta er ekki búið og áfall eins og heilablóðfall er ekki endirinn og því hefur Heilaheill boðið öllum þeim er tengjast heilablóðfalli sem sjúklingar, aðstandandendur eða fagaðilar, boðleið til að afla og miðla upplýsingum um sjúkdóminn, svo að það sé þolanlegra fyrir alla aðila sem upplifa slíkt.