Stjórnarfundur fimmtudaginn 28. desember n.k. kl.17:00 í Sigtúni 42, 105 Reykjavík.
Allir mættir. Páll fyrir norðan. Formaður setti fund og gekk til dagskrár en gaf fyrst stutta skýrslu um ferð til Zagreb á aðalfund SAFE sem hann fór á ásamt Kolbrúnu og Páli. Dagskráin var stíft keyrð á þeim fundi sem formaður sagði gagnlegan, við værum til fyrirmyndar á mörgum sviðum en gætum jafnframt lært af öðrum.
Dagskrá:
- Fjárhagsstaða félagsins.
Axel lýsti henni. Á reiknngi í Íslandsbanka eru 2.668 þúsund krónur. 2.515 þúsund krónur eru á reikningi í Arion banka. Fjárhagurinn er sem sé traustur. Rætt um málstolshópa og hvernig nýta megi styrki sem félagið kynni að fá til málstolskennslu, þ.e. til málstols eftir slag. Axel vill t.d. virkja menntkerfið í landinu. Eins og nú er hefur fólk ekki efni á að leita sér kennslu þ.e. ekki er boðið upp á kennslu á ásættanlegu verði. Fullt er af fólki sem hefur þörf fyrir málstolsþjálfun. Ríkið hefur mikið að sækja að koma þessu inn í hópaþjónustu. Draumurinn er sá að þeir sem fá greiningu um að þeir þurfi þjálfum í máli eftir slag geti gengið inn í ákveðinn skóla (ferli) og lært og fengið þjálfun án þess að þurfa að hafa fjárhagsáhyggjur. Spurning hvernig staðið er best að þessu. Við erum í raun að gera það sem ríkinu ber að gera. Umræður urðu miklar um þessar og fleiri áherslur og allir á því að þoka þessu máli áfram.
- Stofnun kaffihópa á landsbyggðinni.
Spurt hefur verið um það hvenær við komum. t.d. til Eskifjarðar og nærliggjandi staða. Haldnir hafa verið fundir á Selfossi og í Reykjanesbæ. Umræður um tíðni slíkra funda en öllum leist vel á tiltækið. Samþykkt að formaður skipuleggði næstu fundi.
- Tillaga er komin frá SAFE
Tillaga er komin frá SAFE (Samtök slagþola í Evrópu) um hvort hægt sé að halda aðalfund SAFE hér á landi í lok nóvember 2019. Á aðalfundi SAFE, Stroke Alliance for Europe, sem við erum aðilar að, í Zagreb Króatíu 8. des. 2017 var gerð tillaga um Ísland yrði gestgjafaríki fyrir aðalfund samtakanna í lok nóvember 2019. Aðalfundinn þann sátu formaðurinn Þórir Steingrímsson, Páll Árdal, forsvarsmaður Norðurdeildar félagsins og Kolbrún Stefánsdóttir, stjórnarmaður HEILAHEILLA. Í máli formanns kom fram að samtökin hafi verið með aðalfundi víðs vegar um álfuna og ávallt boðið upp á ráðstefnur um heilablóðfallið fyrir sjúklinga og fagaðila tveim dögum fyrir aðalfundinn, með stuðningi fjársterkra aðila. Fram kom að fulltrúi Íslands, Kolbrún Stefánsdóttir, er nú í forsvari fyrir norðursvæði “north cluster” SAFE og situr í stjórn samtakanna og ber henni að veita stjórninni þar svar í byrjun janúar 2018, um hvort að tillagan um aðalfund hér á landi gæti orðið að veruleika. Þórir lagði til við heilbrigðisráðherra nýverið að hann hlutaðist til um að þar til bærir aðilar innan heilbrigðiskerfisins kanni mikilvægi þessarar tillögu aðalfundar SAFE svo unnt sé að gefa ákveðið svar á tilsettum tíma. Ráðuneytinu var bent á að eftirtaldir aðilar þekki til starfsemi HEILAHEILLA: Þór G Þórarinsson, skrifstofustjóri í Velferðarráðuneytinu; Ólafur Baldursson, framkvæmdastjóri lækninga; Björn Logi Þórarinsson, taugalæknir á Landspítalanum; Marianne E. Klinke, forstöðumaður fræðasviðs í hjúkrun tauga- og taugaendurhæfingasjúklinga; Helga Jónsdóttur, prófessor og deildarforseti hjúkrunarfræðideildar Háskóla Íslands; Katrín Júlíusdóttir og Valgerður Sverrisdóttur, fyrrverandi þingmenn og ráðherrar. Svaraði ráðherra um hæl um að hann léti kanna þetta í ráðuneytinu! Í umræðum kom fram að verkefnið væri fyrst og síðast á ábyrgð Heilaheilla og SAFE en frábært væri að hafa stuðning innlendra stjórnvalda. Augljóslega er um mikið verkefni að ræða. SAFE stendur straum af öllum kostnaði. Samþykkt var að stefna að þessu. Samþykkt með atkvæðum allra.
- Önnur mál
- Heimasíðan Tillaga að útliti skoðuð og óskað eftir áliti stjórnarmanna á ýmsum atriðum.
- Prentkostnaður á flettiskiltisbæklingum og hvernig standa bæri að innheimtu félagsgjalda.
Fleira gerðist ekki.
Baldur Kristjánsson
ritari