Aðalfundur Heilaheilla var haldinn, í húsnæði samtakanna, að Sigtúni 42, sunnudaginn 25. febrúar kl. 13:00, með fjartengingu á Akureyri. Tólf félagsmenn mættu á fundinn syðra og 6 nyrðra.
Formaður setti fund kl.13:15, en fundarsetning dróst vegna erfiðleika við að ná beinu sambandi við Akureyri. Gísli Ólafur Pétusson var, að tillögu formanns, samþykktur fundarstjóri með lófataki og undirritaður fundarritari.
1. Skýrsla stjórnar. Formaður rakti starfsemina á liðnu ári. Lagði fram skýrslu er fylgir hér í fylgiskjali.
2. Framlagðir endurskoðaðir reikningar til samþykktar. Axel Jespersen gjalkeri félagsins gerði grein fyrir reikningum. Axel taldi að Heilaheill væri að koma ágætlega út úr þessari vertíð. Kolbrún Stefánsdóttir spurði um mun á ferðakostnaði milli ára. Upplýst var að lægi í mismunandi endurgreiðslu frá SAFE. Reikningar og skýrsla stjórnar voru samþykkt einróma eftir stuttar umræður.
3. Lagabreytingatillögur bornar upp til afgreiðslu. Engar lagabreytingar hafa verið lagðar fram eða kynntar.
4. Kosning stjórnar. 1) Ekki er útrunnið kjörtímabil stjórnarmanna á þessu ári. Axel Jespersen, sem gegnt hefur stöðu gjaldkera lýsti því hins vegar yfir að hann gæfi ekki kost á sér áfram í stjórn félagsins. Fundarstjóri úrskurðaði þá að 1. varamaður Kolbrún Stefánsdóttir yrði aðalmaður. Því þyrfti að velja varamann. Tillaga kom um Harald Ævarsson og var hún samþykkt einróma.
5. Kosning 2ja skoðunarmanna reikninga. Valgerður Sverrisdóttir og þór Sigurðsson voru endurkosin.
6. Fjárhagsáætlun borin upp til samþykktar. Munnleg Fjárhagsáætlun formanns, þar sem fram kom að aðhalds yrði gætt í hvívetna, borin upp og samþykkt einróma.
7. Kosning fulltrúa og talsmanna félagsins í ráð og nefndir. Stjórninni veitt umboð til þess að tilnefna fulltrúa félagsins á fundi og ráðstefnur.
8. Önnur mál. Birgir Henningsson spurði um kynningarfundi og formaður gaf yfirlit yfir þá, sá fyrsti verður á Reyðarfirði og etv. einnig hjá Fjarðaráli. Þá eru einnig fyrirhugaðir fundir á Akranesi og á Ísafirði.
Fleira gerðist ekki. Fundi slitið kl. 14:15.
Baldur Benedikt Ermenrekur Kristjánsson
fundarritari