Aðventufundur, laugardagsfundur HEILAHEILLA degi fyrir aðventuna, var haldinn 2. desember í Sigtúni 42, Reykjavík, eins og auglýst var, var honum “streymt” á Facebókina og þeir Júlíus Sveinbjörnsson og Kári Halldórsson, nemendur í kvikmyndagerð við Borgarholtsskóla, sáu um það.
Geta allir svo skoðað fundinn eftirá á YouTube. Séra Baldur Kristjánsson, félagi og stjórnarmaður, reið á vaðið og flutti hugvekju með sínu lagi og samkvæmt venju. Hann lýsti sínu áfalli og hugleiðingum um það. Þá tók Þórir Steingímsson, formaður, við og fór yfir stöðu félagsins og hvað væri framundan í starfi þess. Að hans máli loknu tók Þórunn Erna Clausen, leik- og söngkona við og skemmti fundarmönnum með söng og sagði sína sögu er varðar slagið. Þá kom Jón Hjartarson, leikari og rithöfundur, og las úr verkum sínum fundarmönnum til mikillar gleði og skemmtunar.
Menn gæddu sér á góðu kaffi og meðlæti á meðan fundi stóð og gerðu góðan róm að. Hafa þessir fundir notið mikilla vinsælda með félagsmönnum og gestum þeirra. Þá hafa fagaðilar einnig sýnt þessum dagskrárlið félagsins mikinn áhuga, þar sem hægt er að fjalla um slagið á sem breiðustum grundvelli, bæði faglegum og félagslegum! Að lokum fóru fundarmenn heim sínu fróðari en áður, glaðir í bragði!