Löngum hafa verið góð tengsl milli HEILAHEILLA hér á Íslandi og HEILAFÉLAGSINS í Færeyjum, þar sem Bjarne Juul Pedersen, fyrrverandi formaður og Maud Wang Hansen, núverandi formaður, hafa sótt félagið heim, – bæði i Reykjavík og Akureyri á undanförnum árum. Nú heimsóttu nokkrir Færeyingar, sjúklingar, aðstandendur og aðstoðarmenn – okkur heim miðvikudaginn 28. ágúst s.l. og fengu afbragðsmóttökur á Grensásdeild í Reykjavík! Starfsfólk deildarinnar fræddi gestina um starfsemina, greiningu á milli heilaáverka vegna slags (heilablóðfall) og ákomins heilaaverka (slys) og svöruðu öllum fyrispurnum þeirra. Formaður HEILAHEILLA, Þórir Steingrímsson, kynnti aðeins sitt félag og stöðu þess innan samfélagsins. Þá fræddu gestirnir fundarmenn um stöðu sína í Færeyjum. Kom í ljós að þeir sem væru með ákominn heilaáverka í Færeyjum væru ekki með formlegt félag ein og félagið HUGARFAR er með hér á landi, – einungis sambýli. Eftir þessa fræðslu og gómsætar veitingar fóru allir glaðir heim.