Á hinum árlega alþjóðaslagdegi HEILAHEILLA lét fjöldi manns mæla í sér blóðþrýstinginn í Kringlunni í Reykjavík og á Glerártorgi Akureyri, er læknar og hjúkrunarfræðingar önnuðust og gáfu gestum og gangandi leiðbeiningar um heilsufar sitt. Þetta átak félagsins er liður í átaki um að vekja almenning til vitundar um áhættuþætti slagsins, m.a. um of háan blóðþrýsting, sem er einn stærsti áhættuþátturinn eða um 40% af þeim er hafa fengið áfallið má rekja til hans! Hverskonar áverki á heila er ómæld óþægindi fyrir þann sem fyrir áfallinu verður, meiriháttar kostnaður fyrir heilbrigðisyfirvöld og samfélagið, – og fer því miður vaxandi ef ekkert verður að gert. Líferni hvers og eins ræður miklu. Hægt er að kenna m.a. velferðinni um, þar sem maðurinn kann ekki að meðhöndla neyslu sína og hegðun. Offita, of hár blóðþrýstingur, ofneysla fíkniefna o.s.frv.. Vitund almennings skiptir höfuðmáli í allri lýðheilsu, – er vegur miklu meira en menn gera sér grein fyrir.


