Þau Þórir Steingrímsson, Anna Sveinbjarnardóttir og Gísli Geirsson frá HEILAHEILL stóðu vaktina á alþjóðalega hjartadeginum fyrir maraþonhlaupið á Kópavogsvelli og göngugarpana við gömlu rafstöðina í Elliðaárdal og vöktu athygli þátttakenda á að hjartagalli gæti leitt til slags (heilablóðfalls), – jafnvel dauða! HEILAHEILL hefur á undanförnum árum verið í samstarfi við Hjartaheill og Hjartavernd, er hefur vinnuheitið HHH-hópurinn og hefur staðið fyrir “Hjartadagshlaupinu” er u.þ.b. 520 manns tóku þátt í í ár, 29. september 2018. Þessir aðilar hafa sameinast um heilbrigt hjarta og vakið athygli á áhættuþáttum er geta leitt til dauða. Hlutverk Hjartaverndar, Heilaheilla og Hjartaheilla er m.a. að sameina hjartasjúklinga, aðstandendur þeirra og áhugafólk um heilbrigt hjarta, stuðla að betri heilsu og bættum lífsgæðum í íslensku samfélagi með áherslu á framfarir í forvörnum, fræðslu og meðferð hjartasjúkdóma. Slag er talin þriðja stærsta dánarorsökin í heiminum, á eftir krabba og hjartaáfalli.