Lífið býður upp á ótal tilviljanir sem svo eins og koma af sjálfu sér og verða til baka litið eins og eðlileg framvinda atburðanna. Þetta flaug mér í hug þegar hann Þórir vinur minn og félagi bað mig segja eitthvað frá tilurð Félags heilablóðfallsskaðaðra, undanfara Heilaheilla. Tilviljun að hluta varð nefnilega til þess að ég átti því láni að fagna að koma að stofnun forverans.
Það er nú einu sinni svo að oft er erfitt upp að rifja og reyna að muna eins og Tómas sagði um fjallanöfnin og náttúruna í kvæði sínu Fjallgangan, en þó skal fáeinum leifturmyndum leyft að leika lausum hala smástund.
Ég hef nokkrum sinnum dvalið á Reykjalundi mér til heilsubótar og tel það að ég væri vart gangfær vegna bakveiki frá unglingsárum, ef ég hefði ekki notið þar líkamlegrar endurhæfingar, andlegrar einnig. Þar hafði ég séð margt kraftaverkið gerast í framförum fólks og meðal þess undraverðasta var oft hversu margir þeirra sem höfðu fengið heilablóðfall höfðu náð sér við dvölina og fengið þá færni sem þeir sjálfir sögðust aldrei hafa trúað að þeir fengju. Þeirra hetjusaga varð mér oftsinnis tilefni til aðdáunar, ekki það að ég væri með öllu ókunnugur afleiðingum þessa áfalls sem starfsmaður Öryrkja-bandalagsins, hafandi svo oft fengið heimsóknir þeirra sem þannig var ástatt um, sem voru staðráðnir í að standa sig sem best úti í samfélaginu og verða þar sem virkastir á ný. Það var lærdómsríkur tími sem ég átti þar, góð og þörf viðbót við fyrri reynslu af flóru mannlífsins.
Yndislegt til þess að hugsa nú að hafa komið þar og áður að stofnun nokkurra félaga sem hafa skilað sínu í tímans rás s.s. Geðhjálpar, MS félagsins, Alnæmissamtakanna, MG félagsins og svo Félags heilablóðfallsskaðaðra og máski rétt að koma sér að efninu. Á Reykjalundi vorið 1994 voru tveir garpar sem ég kynntist ágætlega og komu einn dag að máli við mig og báðu mig taka þátt í með þeim og öðru góðu fólki að koma á laggirnar hagsmunasamtökum þeirra sem orðið höfðu fyrir sömu reynslu og þeir. Þetta voru þeir Eyjólfur K. Sigurjónsson endurskoðandi og þá formaður bankaráðs Landsbankans og Hjalti Ragnarsson vélstjóri sem síðar varð formaður Félags heilablóðfallsskaðaðra og gegndi því starfi um árabil. Það var ekki volið né vílið í þeim félögum, heldur beittur baráttuandi og fullvissa þess að félagsskapur af þessu tagi gæti haft verulega jákvæð áhrif, gæti beitt sér fyrir fræðslu um áföllin, möguleikana eftir það svo sem þið segið í dag: Þetta er ekki búið. Ekki síst töldu þeir að félagið yrði vettvangur sameiginlegrar reynslu fólks, vekjandi samkennd og aukinn skilning, en máski umfram allt að vera málsvari út á við, vekja samfélagið til vitundar um vandann og úrlausnir sem allra bestar. Það var gaman að mega koma að þessu með þessum ágætu mönnum og báðir urðu þeir svo forystumenn í félaginu, Eyjólfs naut aðeins svo alltof stutt við. Það var sest að við lagasamningu og gekk vel að öðru leyti en því að nafn félagsins þvældist alvarlega fyrir mönnum. Ég hafði áður kynnst mismunandi nafnanotkun annars vegar á Reykjalundi þar sem talað var um helftarlamaða og svo á Grensásdeild þaðan sem endanlegt nafn var svo komið.
Á þingi hafði ég flutt þingmál varðandi heimili fyrir þá sem harðast höfðu orðið úti af völdum slíkra og hliðstæðra áfalla og var síðar í nefnd heilbrigðisráðuneytis sem átti að leggja þar til nokkra úrlausn og þar kom þessi nafnavandi berlega fram í máli fulltrúa þessara tveggja endurhæfingarstofnana.
En niðurstaðan varð sem sagt Félag heilablóðfallsskaðaðra við litla hrifningu margra, en þó beðið væri þá um aðra lausn fékkst hún ekki fram. Ákveðið var að bíða byrjar á haustdögum með stofnun félags og mönnum þá ljós sú nauðsyn að fá sem allra flesta til liðs, ekki síður aðstandendur en þá sem fyrir áföllum höfðu orðið. Leitað var til beggja endurhæfingarstofnananna um það að þau vektu athygli á væntanlegri félagsstofnun og þeir félagar Eyjólfur og Hjalti munu hafa farið þangað til viðræðna við það fólk sem þá var þar í endurhæfingu. Á haustdögum 1994 var svo blásið til fundar og mætti dágóður hópur þar og ég held allir hafi gerst félagar, ég man að ég stjórnaði þeim fundi og fyrir utan nafnamálið þá var eining og hugur í fólki og síðan var félagið með skelfilega nafninu eins og einhver þá sagði stofnað, því sett lög og urðu þegar í upphafi nokkrar umræður um það hver skyldu verða verkefni félagsins. Þá þegar var ákveðið að leita eftir vissum fjárstuðningi ríkisvaldsins, farið hóglega í sakirnar og vel man ég þessa fyrstu umsókn til fjárlaganefndar sem ég sendi beint persónulega til Jóns Kristjánssonar sem þá var formaður nefndarinnar og þó seint væri sótt tryggði Jón félaginu 100 þúsund , sá svo um næst að tvöfaldað yrði og þetta var eins konar startfjármagn félagsins til góðra verka og ég hefi alltaf verið Jóni vini mínum þakklátur fyrir veitt liðsinni, því félagsmenn kunnu vel að meta það að félag þeirra svo nýstofnað nyti þó þessarar velvildar ríkisvaldsins. Fræðsla var aðalmarkmiðið í upphafi, fundirnir notalegir kaffifundir með kræsingum höfðu alltaf eitthvert fræðsluefni upp á að bjóða og útgáfa var sömuleiðis tryggð á fræðsluefni og haft þar um samráð við færustu aðila. Man ég vel fundi upp á Grensás og Reykjalundi þar sem ég fékk að fylgja með og gleði fólks þar yfir því að kominn væri fram á sjónarsviðið samstarfsaðili þeirra sem eldurinn brann heitast á.
Ég sótti marga félagsfundi og stjórnaði alllengi aðalfundum félagsins og á þaðan góðar minningar um dugmikla einstaklinga og djarfhuga, fólk sem hvergi lét deigan síga, aðstandendur sem stóðu eins og klettar við hlið maka sinna og ættmenna og áfallamenn sem létu sem ekkert alvarlegt hefði hent þá og margt var vissulega gjört vel, en daprast þótti mér hversu alltof margir þeir voru sem átt hefðu að vera í baráttusveitinni og sem maður vissi af úti í samfélaginu en ekki komu til liðs við félagið sem þurfti á endurnýjun og auknum krafti að halda, en það er önnur saga. En því meiri gleði er mér það að sjá starf ykkar nú blómgast og dafna, þó ég hafi ekki gjört þar sjálfur sem skyldi.
Má ég svo þakka Þóri fyrir að hafa veitt mér þetta kærkomna tækifæri til ljúfrar upprifjunar og um leið að fá að minnast margra genginna góðvina sem eiga sinn stað í hugskoti manns og aðeins nefndir þeir: Eyjólfur K. Sigurjónsson, Ingvar Björnsson og Haraldur Steinþórsson úr þeim hópi. Blessuð sé minning þeirra og svo margra annarra sem horfnir eru af heimi en áttu þarna með okkur samfylgd.
Máski ætti ég að tefja ykkur örlítið með stuttu afmæliskvæði sem ort var í tilefni 10 ára afmælis FHBS og betur að gáð þá hefði ég svo sem getað látið það nægja en þó hófsemi sé dyggð hefur mér ekki alltaf tekist að fanga þá dýru dyggð.
EFTIRSKRIFT:
Eftir nokkrar umræður kom þessi vísa:
Létt að muna í lengd og bráð
ljúfa stund að eiga saman.
Ég held það væri heillaráð
Heilaheillaráð að kalla saman.