Hafdís María Jónsdóttir

Hafdís María Jónsdóttir

Á ósköp venjulegum degi þann 16. október 2008 þegar ég var 26 ára gömul fékk ég blóðtappa. Ég var unnusta, tveggja barna móðir í námi og starfaði í grunnskóla. Ég var nýkomin heim úr vinnunni þegar ég fékk skyndilega mikið suð fyrir eyrun og ég fann hvernig ég missti máttinn á stuttum tíma. Ég rétt náði að kalla á hjálp en litlu munaði að ég hefði verið ein heima þegar áfallið reið yfir. Ég lamaðist í vinstri helming líkamans, var óskýr í máli og það var erfitt að skilja mig. Ég fékk mikinn og þungan verk hægra megin í höfuðið. Ég missti aldrei meðvitund og vissi nákvæmlega að eitthvað mjög alvarlegt væri í gangi. Ég bý í sveit og hugsaði með mér að það yrði löng bið eftir sjúkrabílnum en svo varð ekki raunin. Bíllinn kom eftir u.þ.b. 15 mínútur og hófst þá meðhöndlun samstundis. Það snérist allt í kollinum á mér, ég fór að sjá óskýrt, ég hætti að tala því það virtist enginn skilja mig. Ég man að ég kastaði mikið upp í sjúkrabílnum og var með óbærilegar höfuðkvalir.
Sjúkrahúsdvölin
Ég rankaði við mér á Gjörgæsludeild Landspítalans en gerði mér þó ekki grein fyrir því strax. Höfuðverkurinn var til staðar en lömunin hafði gengið til baka. Ég fann fyrir mikilli dofatilfinningu og máttleysi í vinstri hendinni og vinstri fót og í vinstri helmingi andlits. Sjónin var ekki í lagi, ég fann fyrir mikilli ljósfælni og skynjaði mikið blikk, ljós og liti ásamt sjónsviðsskerðingu. Það var allt svo skrýtið. Mér var sagt að ég hefði fengið blóðtappa sem lenti hægra megin í heilanum. Ég man að mér var létt yfir því að orsök hafði fundist á þessu öllu saman!
Úthaldið var afskaplega lítið og ég var öll svo máttlaus. Skammtímaminnið var ansi gloppótt. Ég svaf mjög mikið og átti erfitt með að vaka fyrst um sinn. Ég fann fljótt að ég var svo lin í fætinum og vinstri hendinni og hafði litla stjórn á þessum líkamshlutum og ég fann fyrir auknum dofa og tilfinningaleysi í vinstri fæti og hendi. Ég gleymi ekki deginum sem ég var látin standa í lappirnar fyrst  eftir áfallið. Mér leið eins og ég væri að klífa hæsta fjall heims. Þetta var allt svo erfitt og þreytan var óbærileg og gekk þetta í nokkra daga. Smám saman fór ég að geta tekið nokkur skref á ný. Eftir ekki svo langan tíma var ég farin að ganga í svokallaðri göngubrú. Ég var með höfuðkvalir, sjónin fráleit og máttleysið fannst mér vera algjörlega óyfirstíganlegt. En dagar liðu og vikur liðu og mér fór stöðugt fram.
Fljótlega kom í  ljós kom að sjónsvið til vinstri á hvoru auga væri skert um 1/4.  Ég fór í hjartaómun gegnum vélinda og sást þá eitthvað athugavert við hjartað sem síðar kom í ljós að væri  tvöfaldur hjartagalli.
Grensás
Strax í nóvember var ég flutt á Grensás. Þar hófst markviss endurhæfing frá fyrsta degi og það var kraftaverki líkast hvað ég öðlaðist mikinn styrk á svo stuttum tíma. Ég notaðist fyrst við göngugrind, síðar fór ég yfir á tvær hækjur og svo yfir í að nota aðeins eina hækju og endaði með því að vera hækjulaus og það var mikill sigur! Þetta gerðist allt á meðan ég var á Grensási. Áhersla var lögð á að styrkja vinstri hliðina en það vantaði  mikið upp á fínhreyfigetu og ég þurfti í raun að læra að ganga upp á nýtt, rétt eins og lítið barn sem tekur sín fyrst skref. Ég kom sjálfri mér á óvart hvað þetta gekk hratt fyrir sig og ég komst að því að lífið væri sannarlega ekki búið þrátt fyrir þetta áfall sem églenti í.
Ég fann fyrir mikilli vinsemd og hlýju frá fólki, ættingjum, vinum og það voru margir sem hugsuðu til mín og mér barst mikið af kveðjum og það efldi mig ennþá meira í að halda áfram og gera betur og enda sem sigurvegari í baráttunni. Enda var til mikils að vinna, heima biðu mín maðurinn minn og börnin okkar tvö, þá 8 og 4 ára gömul sem vantaði mömmu sína. 
.
Lífið eftir Grensás
Ég var mjög ánægð með mig eftir útskrift en fljótlega fór ég nú að sjá að ég átti enn mikið verk fyrir höndum til að ná “fullum“ bata. Úthaldið var enn þannig að ég hélt ekki daginn út án þess að leggja mig í a.m.k tvær klukkustundir á daginn. Svo gerðist það fyrra hluta árs 2009 að ég hneig niður og líðanin var fyrst um sinn eins og ég væri að fá annan blóðtappa.  Sjúkrabíl og fljótt kom í ljós að ekki væri um blóðtappa að ræða enda var ég enn á blóðþynningu. Ákveðið var þó að leggja mig inn og senda mig aftur í hjartaómun gegnum vélinda og þá sást klárlega op milli hjartahólfa. Í framhaldinu var ég send til Hróðmars Helgasonar hjartalæknis sem taldi  að þessu opi milli hjartahólfanna yrði að loka. Var það gert í maí 2009 og reyndist opið vera 1 ½ cm langt. Það er því líklegasta orsökin að blóðtappinn varð vegna þessa leynda fæðingargalla
Fyrri hluta þessa árs fór ég á Reykjalund í frekari endurhæfingu. Um var að ræða stíft endurhæfingarprógram sem miðaði að því að ég öðlaðist meira úthald og meiri líkamlegan styrk. Með dvölinni á Reykjalundi öðlaðist ég gríðarlegan styrk og aukið úthald. Sú dvöl gerði mig mun sterkari en með góðri þjálfun er hægt að ná ótrúlegum bata.
Að lokum
Trú, kjarkur og viljastyrkur eru bestu vopnin, að mínu mati, til að nota i baráttunni við veikindi eins og heilablóðfall. Stuðningur fjölskyldu og vina er einnig gríðarlega mikilvægur. Aldrei að gefast upp, sýna þolinmæði og líta ávallt fram á veginn. Það er síður en svo auðvelt, tekur tíma og kostar bæði svita og tár að ná sér upp úr alvarlegum veikindum. Ég er enn með sjónsviðsskerðinguna, dofann í vinstri líkamshelmingi og verð að passa að fá næga hvíld. Dofinn mun líklega aldrei hverfa og ekki sjónsviðsskerðingin heldur, er mér sagt. Hægt er að læra að lifa með varanlegri skerðingu á líkamanum, skerðingu sem við fáum ekki til baka, það er mikilvægt að hafa í huga því lífið heldur áfram. Mér líður mjög vel í dag og hef margt lært af þessari lífsreynslu enda var ég svo heppin og komst vel frá þessu öllu saman.
 

 

 

 

 

Til baka

Heilaheill notar vafrakökur til að bæta upplifun og greina umferð um vefinn.

Friðhelgisstillingar

Við notum vafrakökur til að skrá upplifun notenda vefsins svo við getum betur komið til móts við þá. Hér getur þú með einföldum hætti haft áhrif á þá virkni.

Vafrakökurnar hér að neðan eru nauðsynlegar svo vefurinn starfi eðlilega.

Þessi vafrakaka vistar stillingar notandans varðandi samþykki á vafrakökum á heilaheill.is
  • CookieConsent

Þessar kökur eru hluti af WordPress kerfinu.

  • wordpress_test_cookie
  • wordpress_logged_in_
  • wordpress_sec

Hafna öllum vafrakökum
Samþykkja allar vafrakökur