Ástrós Guðlaugsdóttir

Ástrós Guðlaugsdóttir

Föstudagurinn 19. ágúst 2011 byrjaði eins og hver annar vinnudagur.  Upp úr klukkan 14 sat ég við skrifborðið mitt og var ég að setja nafnið mitt á skjöl sem ég ætlaði að senda frá mér. Skyldilega fann ég hvernig hellist yfir mig máttleysi og ég gat ekki skrifað; penninn datt úr hendinni á mér. Ég var búin að vera með mikla vöðvabólgu og hafði farið í nudd á miðvikudeginum og hélt að vöðvabólgan væri að taka sig svona rosalega mikið upp.

Fljótlega var mér ljóst að eitthvað var í gangi og hóaði í samstarfskonu mína og sagði henni að eitthvað væri ekki eins og það ætti að vera. Mjög fljótlega hópuðust samtarfsfélagarnir í kringum mig. Þegar þarna var komið fór máttleysið yfir í vinstri helminginn á líkamanum og í kjölfarið rosalega mikil yfirliðstilfinning. Ég varð vör við lömun í vinstri hendinni og fylgdi því að erfitt var um mál. Þegar á leið varð vinstri fóturinn líka skrýtinn og ég treysti mér engan veginn til að standa upp. Þetta gerðist allt mjög hratt.

Þegar þarna var komið var tekin ákvörðun um að hringja í 112 þar sem samstarfsfólkinu leist ekki á mig og ég sjálf ekki í rónni. Rétt áður en sjúkrabíllinn kom á svæðið leið þetta allt hjá og ég varð eðlileg aftur.  Eftir að sjúkraflutningamennirnir höfðu skoðað mig stuttlega geng ég með þeim út. Í sjúkrabílnum fæ ég annað svona kast og svo allavega fjórum sinnum á bráðamóttökunni.

Ferlið á bráðamóttökunni var allt mjög hratt og var ég strax send í sneiðmyndatöku þar sem kom í ljós að ekki var um neina blæðingu eða æxli að ræða. Í framhaldinu var ég lögð inn á deild B2 eða taugadeild á gamla Borgarspítalanum og lá þar í 5 daga. Ég var pínu óheppin að þetta gerðist á föstudegi þar sem engar rannsóknir eða myndatökur eru gerðar um helgar og var ég því í biðstöðu fram yfir helgina.

Strax eftir helgi gekk allt mjög hratt fyrir sig og kom í ljós að ég hafði fengið þrjá tappa í höfuðið. Þeir hafa trúlega lagt af stað sem einn tappi og skipt sér svo í æðakerfinu þar sem ég var með einn ágætlega stóran uppi hægra megin í höfðinu (sem orsakaði lömunina vinstra megin) og tveir litlir tappar í vinstra hnakkablaðinu og skilst mér á læknunum að þeir séu það litlir að ég hafi trúlega ekki orðið vör við þá. Það var mikið sjokk að fá þessa sjúkdómsgreiningu á 34 aldursári.

Starfsfólkið á spítalanum var allt til fyrirmyndar og umönnunin mjög góð og mér finnst útskriftin mín af spítalanum ekki alveg vera í takt við það sem ég hafði upplifað í öllu ferlinu. Við útskriftina fæ ég að sjá myndir af heilanum og sé hvar tapparnir höfðu verið og sagt að þeir hafi ekki skemmt neitt út frá sér og að ég komi til með að ná mér að fullu. Einnig fékk ég þær upplýsingar að ekki hefði fundist nein ástæða fyrir því að þetta hafði gerst.

Ég fæ í hendurnar veikindavottorð fyrir rúman mánuð og sagt að fara bara út í göngutúra til að vinna mig upp og gott væri fyrir mig að fara á skriðsundsnámskeið við vöðvabólgunni. Annað veganesti fékk ég ekki frá spítalanum. Þeir minnast ekki einu orði á Heilaheill eða gefa mér bækling um heilablóðföll. Þannig að þegar ég kem heim er ég litlu nær um það sem hafði gerst eða hvað tæki við.

Eftir þetta hefur mér svolítið liðið eins og ég sé í þokuog reyni að þreifa fyrir mér við hvert skref.
Fyrstu vikuna eftir að ég kom heim af spítalanum gat ég sofið meira og minna allan sólahringinn en svo kom kraftur smám saman í mig. Þegar fór að líða undir lok veikindafrísins var ég mjög hissa á því að ég væri ekki komin í stand til að fara í vinnuna aftur. Á þessum tímapunkti ofkeyrði ég mig og í kjölfarið hrundi líkmalegt ástand aftur á byrjunarreit og andlega hliðin fylgdi með.

Ég hafði pantað tíma hjá heimilislækninum mínum til að fá skrifað upp á sjúkranudd þar sem ég var orðin mjög legin þar sem þessu fylgir alveg ofboðsleg þreyta. Þá lenti ég hjá yndislegri konu sem vildi bara fá mig í sjúkraþjálfun til að koma mér aftur á fæturna. Í upphafi voru þetta 2-3 skipti í viku og fann ég strax rosalegann mun. Eftir mánuð í sjúkraþjálfun gat ég farið að byrja að mæta í vinnuna en það sem kom mest á óvart var hvað ljós tölvuskjár fór rosalega illa í mig og komst að því að best væriað vera með síu á tölvuskjánum og derhúfu á höfðinu. Fyrst í stað gat ég einungis mætt í einn til tvo klukkutíma í vinnuna og var nóvembermánuður ferkar erfiður þar sem ég var að reyna að finna út hvernig best væri að standa að þessu. Desember gekk betur og ég náði að lengja vinnudaginn um klukkustund á viku og var í byrjun nýs árs komin í sex tíma á dag.

Það sem hefur komið mér mest á óvart er hvað þessi veikindi raska mikið líkamsstarfseminni og því lífi sem maður þekkir. Eftir blóðtappann hef ég þurft að passa mig á of miklum hita; þá er alveg sama hvort sé verið að tala um sturtuna, hitann í íbúðinni eða hitann frá miðstöðinni í bílnum. Það er eins og of mikill hiti taki alla orku úr mér. Eins er ég mjög viðkvæm fyrir allri birtu og er yfirleitt með sólgleraugu í bílnum. Eins hefur það komið á óvart hvað getur verið erfitt að vera í bíl en þegar ég er þreyttust finnst mér best að liggja í aftursætinu.

Það er líka ýmislegt áreiti í umhverfinu sem ég hef ekki tekið eftir áður og það getur verið erfitt fyrir taugakerfið þar sem það hefur allt riðlast. Ég hef oft líst þessu eins og maður sé veikur og ég er yfirleitt best yfir miðjan daginn og það reyndist mér því best þegar ég fór að mæta aftur til vinnu að koma í hádeiginu og reyna að lengja daginn í svo smám saman í báðar áttir.

Í þessu öllu saman hefur reynst mér best að líta á björtu hliðarnar og gera óspart grín að mér sjálfri því þetta hefði geta farið miklu verr og má ég því vera þakklát þrátt fyrir allt. Einna erfiðast er að detta niður á byrjunarreit eftir að hafa ofgert sér eða fengið umgangspest. Þá verður maður að halda í jákvæðnina og telja upp að tíu. Þegar ég hef orðið óþolinmóð og fundist ekkert þokast í rétta átt hefur reynst mér vel að hafa haldið vel utan um allt í sambandi við veikindin. Þá hef ég geta flett upp á hvernig ástandið var fyrir viku síðan eða tveimur og borið saman við ástandið á mér í dag. Þegar þetta er skoðað þá er niðurstaðan alltaf sú sama: ég er bara óþolinmóð og hlutirnir ekkert að ganga hægt.

Til baka

Heilaheill notar vafrakökur til að bæta upplifun og greina umferð um vefinn.

Friðhelgisstillingar

Við notum vafrakökur til að skrá upplifun notenda vefsins svo við getum betur komið til móts við þá. Hér getur þú með einföldum hætti haft áhrif á þá virkni.

Vafrakökurnar hér að neðan eru nauðsynlegar svo vefurinn starfi eðlilega.

Þessi vafrakaka vistar stillingar notandans varðandi samþykki á vafrakökum á heilaheill.is
  • CookieConsent

Þessar kökur eru hluti af WordPress kerfinu.

  • wordpress_test_cookie
  • wordpress_logged_in_
  • wordpress_sec

Hafna öllum vafrakökum
Samþykkja allar vafrakökur