Svanur Jóhannsson

Svanur Jóhannsson

Svanur fékk heilablóðfall og er dyggur félagi í HEILAHEILL.  Eftirfarandi er viðtal við hann er birtist í Tunninni í Ólafsfirði 2011:

Kraftaverkið í Fjallabyggð

Í Ólafsfirði býr maður sem hefur fengið þyngra verkefni í lífinu en margur annar frá almættinu. Þrátt fyrir að hafa fengið mjög alvarlegt heilablóðfall og misst þrjár dætur sínar yfir móðuna miklu stendur hann uppréttur, fullur af kærleika og brosir framan í lífið. Við skulum nú fræðast aðeins meira um þennan merka mann.

 

Fullt nafn: Ég heiti Svanur Jóhannsson og er 66 ára gamall.


Hverjir eru foreldrar þínir ?
Þau eruJóhann Sigurðsson sjómaður og Alda Jónsdóttir verkakona.

Hverjir eru heimilishagir þínir ? Ég er einhleypur og bý í Ólafsfirði en fæ börnin mín og annað yndislegt fólk oft í heimsókn. Börnin mín hugsa vel til mín og það gleður hjarta mitt mikið að eiga þau og aðra að. Ég hef tvisvar verið giftur en alls búið með þremur konum yfir ævina sem allar hafa gefið mér mikið. Ég hugsa mjög hlýlega til þeirra allra og þykir mjög vænt um þær.

Áttu einhver börn ?Já ég á þrettán yndisleg börn og þar af eru sex þeirra líffræðilega mín. Tíu eru á jörðinni en þrjú hjá almættinu. Dóttir mín Snæbjörg varð fyrir bíl 9 ára gömul. Ég kynntist móður hennar þegar hún var ófrísk af henni og ól hana alveg upp. Þetta var rosalegt áfall þegar hún lést en ég var nýbúinn að gefa henni hjólið sem hún var á þegar hún varð fyrir bílnum. Þetta er eitthvað sem maður verður bara að lifa með en sorgin hverfur aldrei öll. Hin elskulega dóttir mín hún Alda Jóhanna dó úr krabbameini á fertugsaldri og söknuðurinn eftir henni er mikill. Hún var frábær listakona og tjáði sig þannig á yndislegan hátt. Síðan átti ég aðra stelpu sem lifði í þrjá daga og hún var skírð Jóhanna. Ég er samt mjög þakklátur fyrir allt í lífinu og veit að Snæbjörg, Alda og Jóhanna eru í góðum höndum hjá guði.

Hver eru helstu áhugamálin ? Bílar hafa nú alltaf verið mikið áhugamál hjá mér og ég held að ég fari með rétt mál þegar ég segi að um 120 bílar hafa verið skráðir á mig í gegnum ævina. Þeir gætu verið fleiri en ég man það ekki alveg. Mitt helsta áhugamál í dag er bara að vera í góðum félagsskap með vinum og ættingjum.

Ertu uppalinn hér í Ólafsfirði ? Ég fæddist á Siglufirði og flutti til Ólafsfjarðar þegar ég var um 3 ára aldurinn.

Hvernig var lífið þegar þú varst að alast upp ? Það var yndislegt að alast upp hér í Ólafsfirði. Það var svo mikið frelsi og góðmennska úr öllum áttum. Það voru allt aðrir tímar en eru í dag. Í dag sitja börnin mest allan daginn við tölvu eða sjónvarpsskjá en þegar ég var að alast upp grátbáðum við mömmu og pabba um að fara út eftir kvöldmat til að leika. Þetta var bara ævintýraheimur og leikir allan sólarhringinn. Við máttum gera næstum því allt og það var enginn sem rak okkur af bryggjunum á kvöldin.Við gerðum okkur stundum til gamans að leggja línu í höfnina og reyndum að veiða eitthvað en það tókst ekki alltaf. Á þeim tímum voru engin fíkniefni og við vorum því alveg örugg hvað allt svoleiðis varðar sem betur fer. Það vissi enginn hvað fíkniefni voru á þeim tímum en því miður er það allt önnur saga í dag og mörg börn og unglingar leiðast út í þau. Þá fundum við okkur alltaf eitthvað að gera og lékum okkur mjög mikið nánast allan sólarhringinn úti í náttúrunni. Það skipti ekki máli hvort það var vetur, sumar, vor eða haust, við vorum alltaf úti. Fullorðna fólkið var meira segja með okkur í leikjunum og ég man þegar ég var ungur. Þá fékk ég alltaf að vera stikkfrí því ég var svo lítill. Það var þessi samheldna Ólafsfjarðarást sem var svo ríkjandi og ég vona svo sannarlega að hér muni byggjast upp stór og falleg Fjallabyggðarást.

 

Þú veiktist alvarlega fyrir nokkrum árum, getur þúsagt okkur aðeins frá því ? Já, ég fékk mjög alvarlegt heilablóðfall og ég get sagt þér að það var bara kraftaverk að ég lifði það af og að ég er eins og ég er í dag. Læknarnir voru búnir að gefa ættingjum mínum það í skyn að mjög litlar líkur væru að ég myndi ná mér af þessu og fólk hélt einfaldlega að ég myndi bara deyja. Ég var algjörlega meðvitundarlaus en það er svo skrýtið að það er eins og ég hafi haft innri meðvitund því að ég man að ég gat hugsað og ég hugsaði bara um að ég yrði að lifa þetta af því að ég vildi sjá Agnar strákinn minn fermast. Þó að ég heyrði ekki í neinum og var ekkert meðvitaður um hvað hefði gerst þá gat ég hugsað með þessari innri meðvitund þegar ég var meðvitundarlaus. Ættingjar báðu fyrir mér og systir mín söng sálma fyrir mig. Þegar það átti að skera mig upp var fenginn til prestur sem var á sjúkrahúsinu sem ég þekkti úr Boðunarkirkjunni og hann og systir mín fóru á hnén við sjúkrarúmið hjá mér og báðu fyrir mér. Ég á samt líka minningu að hafa heyrt í systur minni syngja en ég var samt meðvitundarlaus og vissi ekkert hver var þar á ferð en þetta var staðfest seinna þegar ég hafði náð mér. Það var einnig beðið fyrir mér um allan heim því að það voru sendar fyrirbænir til hinna ýmsu kirkja um land allt og víðsvegar um heiminn. Ég þakka öllum þessum fyrirbænum það að ég er á lífi og með skýra hugsun. Þetta var einfaldlega algjört kraftaverk. Ég er eiginlega alveg máttlaus hægra megin en ég get stigið í fótinn en ekkert notað hann af ráði á annan hátt. Hægri hendin er líka algjörlega máttlaus en ég hef náð mér nokkuð vel í málinu. Ég var eiginlega alveg mállaus í fyrstu en fyrir kraftaverk hef ég komið til baka. Ég þurfti að læra allt alveg upp á nýtt en sleppti tveimur atriðum sem var að reykja og drekka. Ég sá að ég þurfti ekkert á því að halda því svoleiðis siðir eru bara blekking sem veita manni meiri vanlíðan en gleði. Ég hef verið í Boðunarkirkjunni í mörg ár og trúin hefur veitt mér hina raunverulegu hamingju.

Komstu í fermingu sonar þíns ? Já ég gerði það og þakka guði fyrir þá gjöf. Menn hafa farið mjög illa út úr svona heilablóðfalli og oft ekkert getað tjáð sig eða hreyft. Ég varð fyrir blessun sem ég þakka fyrir á hverjum degi.

Við hvað ertu að fást í dag ? Ég fer í föndur tvisvar í viku og spilavist einu sinni í viku. Síðan er ég bara að njóta lífsins og er eiginlega alltaf glaður og á yndislegar stundir með vinum og ættingjum.

Hvernig finnst þér að búa í Fjallabyggð? Mér líður mjög vel hérna og það má segja að ég sé ekta Fjallabyggðarmaður því að ég hef búið á báðum stöðum. Náttúran, fjöllin og fólkið hér er alveg yndislegt og mér þykir mjög vænt um Fjallabyggð. Ég hef alltaf fundið mikla ást og væntumþykju til Siglfirðinga þó að ég hafi alist að mestu upp á Ólafsfirði. Siglufjörður hefur verið mér kærari en margir aðrir staðir og hann mun alltaf eiga stað í hjarta mínu.

Áttu þér einhvern uppáhaldsstað í Fjallabyggð ? Ég átti góða tíma þegar ég var í Garði hjá frænda mínum þegar ég var ungur. Garður er sveitabær hér fyrir neðan golfvöllinn íÓlafsfirði. Þar lærði ég á klukku og upplifði marga skemmtilega tíma. Síðan eru bara Siglufjörður og Ólafsfjörður í heild sinni mínir uppáhaldsstaðir, þannig að það má bara segja að Fjallabyggð sé minn uppáhaldsstaður.

Hvað finnst þér þú hafa lært af lífinu ? Það er nú mikið get ég sagt þér en fyrirgefningin og það að vera auðmjúkur mætti segja að sé svona það helsta. Ég hef lært að það hefur ekkert upp á sig nema kvalir og eymd að vera reiður eða sár við aðra. Maður á að vera þakklátur fyrir það sem maður hefur og líta lífið björtum augum eða horfa á það jákvæða í lífi sínu. Ég hef aldrei átt mikið af peningum en ég hef verið ríkur af því sem skiptir raunverulega máli en það er fjölskyldan. Pabbi sagði einu sinni við mig; ,,Svanur minn, mundu að vera góður þjóðfélagsþegn, aldrei taka það sem þú ekki átt og aldrei segja ósatt´´. Þetta hef ég alltaf haft með mér í lífinu og verið mitt lífsmottó. Ég hef líka kennt börnunum mínum þetta og það hefur komið sér vel fyrir okkur öll.

Hvað er það besta sem hefur komið fyrir þig í lífinu? Að eignast son í restina því að ég hafði bara eignast stelpur yfir og það var gaman fyrir mig að fá einn son svona í lokin. Hann er algjör reglumaður í dag og gengur mjög vel í lífinu. En að sjálfsögðu elska ég öll börnin mín jafnmikið og þau eru mitt ljós í lífinu.

Hvaða dyggðir finnst þér að ungt fólk ætti að tileinka sér í dag þegar það er að hefja lífið ? Mér finnst að ungt fólk ætti að staldra við og hugsa málin vel áður en það tekur ákvörðun í öllum málefnum lífsins. Fólk ætti að vanda vel val sitt t.d. á mökum og vera alveg viss um að það er að gera rétt áður en það tekur ákvörðun. Ég myndi einnig benda þeim á að fara varlega í peningamálum því sá sem fer illa með peningana sína verður alltaf undir í þjóðfélaginu hvort svo sem hann er menntaður eða ekki. Reglusemi á alla vísu er það sem ég myndi benda unga fólkinu á.

Hvað þýðir það að vera góður vinur í þínum huga ? Góður vinur er það besta sem maður getur eignast. Góður vinur er eins og bróðir sem maður getur alltaf treyst á. Ég hef átt marga félaga en fáa góða vini sem ég get treyst fyrir öllum heimsins málum. Góður vinur er mikils virði.

Hvaða einstaklingur hefur haft mest áhrif á líf þitt og afhverju ? Það eru foreldrar mínir því þau reyndust mér mjög vel og kenndu mér góða siði eins og að koma fram við aðra eins og ég vil að aðrir komi fram við mig. Ég hef alltaf borið virðingu og ást til foreldra minna fyrir þetta.

Hvað finnst þér vera mesta afrek þitt í lífinu ? Aðeignast börnin mín og að hafa alið þau rétt upp og hjálpað þeim út í þjóðfélagið. Ég er mjög stoltur og ánægður af börnunum mínum sem eru öll á réttri braut í lífinu og mjög vel gefin á allan hátt.

Trúir þú á líf eftir dauðann ? Já, ég geri það svo sannarlega og ég held að flestir trúi því þótt fólk tali nú ekki mikið um það, svona frá degi til dags. Ég hef mína trú og vissu sem ég geymi með sjálfum mér og trúi á eilífðina.

Hvort finnst þér vera mikilvægara, kærleikur eða viska ? Kærleikurinn fyrir mér er nr. 1, 2 og 3. Ég tek kærleikann fram yfir allt annað og því myndi ég setja viskuna í annað sætið. Ég hef alltaf predikað sjálfum mér að vera kærleiksríkur og aldrei öfundsjúkur. Ég verð alltaf glaður í hjarta mínu ef öðrum gengur vel í lífinu og þá hvort sem það snýr að hinu efnislega eða hinu andlega. Kærleikurinn heldur mér gangandi í lífinu. Þegar kærleikurinn er til staðar er enginn ótti og þú kannski manst að Jesús Kristur sagði að guð væri kærleikur og það hef ég ávallt haft að leiðarljósi í lífinu. Ég vil nú líka taka fram að eftir að ég fékk heilablóðfallið finnst mér ég hafa öðlast meiri sálarfrið og horfi björtum augum á allt, þrátt fyrir að hlutirnir hafi ekki alltaf verið auðveldir. Ef eitthvað neikvætt hefur komið fyrir í lífinu hjá mér hef ég reynt að baða það í ljósi og horfa á það með kærleiksríkum augum.

Hvert ferðu þegar þú vilt vera einn með sjálfum þér ? Þá fer ég bara á rúntinn og drekk í mig samfélagið og náttúruna. En ég er líka mikið einn heima og líður mjög vel þar. Heimilið mitt er svona griðarstaður þar sem ég get hugsað um heima og geima og líður bara mjög vel þannig. Ég hef orðið fyrir mörgum blessunum í lífinu og er svo þakklátur fyrir allt. Ég er rosalega þakklátur fyrir heimilið mitt og það sem ég á.

Hverja telur þú helstu kosti í fari annarra ? Fyrir mér er það kærleikur og heiðarleiki. Sannleikurinn gerir mann frjálsan og sá sem hefur ekki kærleika lifir í ótta og það er ekki gott líf. Sannleikurinn og kærleikurinn borgar sig ávallt. Hann kemur alltaf best út fyrir alla í lífinu og ég myndi ráðleggja fólki að halda þessu tvennu saman.

Ef þú mættir velja þér eina breytingu í þjóðfélaginu hver yrði hún ? Það væri bætt kjör fyrir þá sem minna mega sín.

Finnst þér örorkubæturnar vera nógu háar svo að einstaklingurinn geti lifað sómasamlegu lífi ? Nei langt í frá Gísli minn. Það sem hefur bjargað mér hvað varðar fjárhaginn er að ég var á sjó hér áður fyrr og hef góðan lífeyri. En það sem ég fæ frá Tryggingastofnun hefur alltaf verið frekar lélegt. Ég á mjög erfitt með að skilja hvernig einstaklingar, sem eru öryrkjar, geta lifað af á svona lágum launum. Ég veit um marga sem eiga erfitt og þurfa að sækja hingað og þangað til að fá mat og föt. Þetta er ekki sómasamlegt líf og við eigum ekki að láta svona viðgangast í þjóðfélaginu. Ég tek rosalega mikið út með þessu fólki og finnst erfitt að hugsa um alla þá erfiðleika og þjáningar sem þetta fólk fer í gegnum á degi hverjum. Þegar þessir einstaklingar eru búnir að borga leiguna fyrir íbúðina sína er ekki mikið eftir og ég skil bara ekki af hverju þetta er svona. Það er í raun og veru níðst á þeim sem minna mega sín. Það er enginn sem velur það að vera öryrki og við eigumað hlúa að þeim sem eru líkamlega eða andlega bæklaðir. Þrátt fyrir að ég fái þennan sjómannalífeyri á ég oft lítinn mat, ég get alveg viðurkennt það fyrir þér. Hugsaðu þá um öryrkjanna sem fá bara bætur frá Tryggingastofnun, þeir eiga kannski engan mat stóran hluta mánaðarins. Þetta er mjög sorglegt og ég finn mikið til með öryrkjum.

Hvernig sérðu fyrir þér Fjallabyggð í framtíðinni ? Ég sé fyrir mér að Fjallabyggð eigi eftir að verða mikill skólabær og að margir eigi eftir að koma hingað til að nema í nýja framhaldsskólanum. Ég veit að sameiningin á bara eftir að verða til góðs og þegar það verðurbúið að gera allt að einu, eins og verið er að gera með t.d. lögreglustöðina og fleira verður allt betra hjá okkur. Við eigum að nýta það sem er betra í hvoru bæjarfélagi og sameinast til fulls. Mér finnst ekki mikið gagn að hafa tvennt af öllu hér í byggðinni okkar. Þó mérhafi fundist vont og erfitt að sýsluskrifstofunni hafi verið lokað hér í Ólafsfirði vegna tryggingamálanna sem ég þarf stundum að sinna, lít ég samt á það jákvæðum augum því aðstaðan og þjónustan þar er mun betri.

Hvað finnst þér um sameininguna og Héðinsfjarðargöngin ? Það er bara gott mál á margan hátt en mér finnst Héðinsfjarðargöngin svolítið dýr og þau munu seint ef einhvern tíma borga sig upp fjárhagslega séð. En margir myndu segja að þau borgi sig upp þegar kemur að samfélaginu og líðan okkar og ég tek alveg undir það. Líðan okkar og samfélagsins í heild sinni er mun meira virði en peningar og þess vegna er þetta allt bara jákvætt.

Ertu farin að líta á Siglufjörð sem heimabæ, alveg eins og Ólafsfjörð ? Ég er náttúrulega búin að búa svo lengi á Ólafsfirði, að í dag er hann miklu meiri heimabær heldur en Siglufjörður. En ég held að það muni breytast hægt og rólega með tímanum. Mér hefur alltaf þótt vænt um Siglufjörð og fólkið sem býr þar þannig að það verður ekki erfitt fyrir mig að upplifa hann fljótt sem heimabæ.

Ertu ánægður og sáttur með lífið í dag ? Já svo sannarlega, ég gæti ekki verið ánægðari.

Eitthvað að lokum sem þú vilt segja okkur ? Já, kannski bara það að ég er mjög þakklátur fyrir börnin mín og fyrir það sem ég er í dag. Ég er hamingjusamur maður og líður rosalega vel . Ég er líka rosalega þakklátur fyrir að hafa komist í fermingu sonar míns Agnars eftir heilablóðfallið og finnst það vera stórkostlegt kraftaverk. Ég vil þakka öllum sem báðu fyrir mér og ég þakka almættinu fyrir lífsgjöfina. Guð blessi ykkur öll og munið að kærleikurinn er mestur og bestur.

Hellan héraðsfréttablað

3. tbl. 2011

Viðtalið tók

Gísli Hvanndal Jakobsson

Til baka

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.

Heilaheill notar vafrakökur til að bæta upplifun og greina umferð um vefinn.

Friðhelgisstillingar

Við notum vafrakökur til að skrá upplifun notenda vefsins svo við getum betur komið til móts við þá. Hér getur þú með einföldum hætti haft áhrif á þá virkni.

Vafrakökurnar hér að neðan eru nauðsynlegar svo vefurinn starfi eðlilega.

Þessi vafrakaka vistar stillingar notandans varðandi samþykki á vafrakökum á heilaheill.is
  • CookieConsent

Þessar kökur eru hluti af WordPress kerfinu.

  • wordpress_test_cookie
  • wordpress_logged_in_
  • wordpress_sec

Hafna öllum vafrakökum
Samþykkja allar vafrakökur