Sumarið 2004, hafði ég verið að vinna mikið og verið í ýmsu meðfram mínu fasta starfi, sem er að vera Öryggisstjóri fyrir Kringluna Rekstrarfélag. Já, ég hafði farið á árganga mót norður á Siglufjörð, en ég er ættaður þaðan, var veislustjóri og var þar í mörgu að snúast. Ég hafði verið mældur hjá lækni árið 2002 með nokkuð háan blóðþrýsting og fengið meðal við því. Þegar ég taldi að þrýstingurinn væri kominn í eðlilegt form, þá hætti ég alveg að taka inn meðulin, og hélt áfram mínu striki. Ég vann mikið og tók lítið frí, lét aðra fara á þeim tíma sem þeir vildu helst. Í fyrra (2004) fórum við hjónin í sumarfrí um miðjan júlí, norður á Siglufjörð, móðir mín á afmæli þann 27 júlí. Þegar norður kom var ég eins og oft áður, fullur áhuga að koma í framkvæmd margskonar verkum bæði að slá blettinn sem að er stór, og einnig margt annað í sambandi við húsið sem við eigum þar.(æskuheimili mitt) Konan var alltaf að segja við mig að fara nú varlega og ofkeyra mig ekki, taka bara lítið á hverjum degi. Ég hélt að það væri nú ekki mikill vandi. Systir mín Sigríður og hennar maður Jóhann voru hjá okkur í nokkra daga, það var verið að vígja nýjar kirkjutröppur sunnudaginn25. júlí og var margt til skemmtunar, við skruppum út á Sauðanesvita, en þar var fagnaður mikill og boðið upp á kryddsíld o.fl. ég fékk mér vænan skammt. Ég veit það núna að síldarátið var ekki gott fyrir mig. Seinna um daginn fórum við öll í kaffi til mömmu upp í Skálarhlíð (dvalarheimili aldraðra). Þá tekur Anna eftir því að ég var eitthvað skakkur í andliti, hægra munnvik var ekki eins og það átti að vera, þegar ég hló, ég fann ekki fyrir neinu og sagði að það væri allt í lagi með mig.
Konan fór með mig uppá spítala á mánudeginum og hafði samband við lækni sem skoðaði mig og sagði að ég þyrfti að fara strax suður og hitta sérfræðinga. Næsta dag ók ég svo suður til Reykjavíkur og var ekki mjög hress með allt þetta tilstand með mig. Ég þyrfti bara að fara snemma að sofa og þetta myndi batna næsta dag. Þegar suður kom lét ég það eftir henni að fara uppá bráðavakt. Þar var ég skoðaður hátt og lágt og fluttur á Borgarspítala, þar sem .ég var lagður inn á taugadeild og var þar í viku.
Þar var ég rannsakaður og úrskurðurinn var vægt heilablóðfall
Ég fór á milli sérfræðinga bæði sálfræðinga og taugasérfræðinga og talmeinafræðinga, og síðan var mér skipað að vera heima fram í september.
Ég fór aftur að vinna 6. september, og þá hluta úr degi og var það fram að 8. desember, en þá var aðal vertíðin í Kringlunni að hefjast. Ég tók þátt í henni og ofkeyrði mig aftur , þannig að ekki var um annað að ræða en fara í hvíld, og fór ég í Hveragerði, og var það í 6 vikur.
Eftir það var ég nokkuð góður og hef síðan látið vinnuna vera í öðru sæti en ég númer eitt. Það hefur verið svona fram á þennan dag.
Þetta er saga mín í stórum dráttum um heilablóðfallið sem ég fékk. Ég er ennþá fljótur að þreytast, og þegar kalt er þá sækir kuldi í hægra fót og hönd, og er það mjög bagalegt. Í dag er ég að vinna mig hægt og hægt út úr þessu, og kemur það með tímanum .. Ég tek blóðþrýstinginn reglulega og er hann orðinn reglulega góður.
Ég er á lyfjum sem ég tek á hverjum degi. Ég þarf að skrifa niður margt því ég man ekki eins og áður.
Þetta er mín saga.
Magnús Pálsson
Engjasel 35, 109 Rvk.Til baka