
HEILAHEILL var með kynningu á ráðstefnu á vegum Velferðarráðuneytisins um nýsköpun og tækni í velferðarþjónustu er haldin var í Hofi á Akureyri 4.–5. júní s.l.. Á ráðstefnunni kynntu fulltrúar félagsins á Akureyri málefni félagsins er varðar málstol eftir heilablóðfall í svokölluðu “Lausnargallerí“ þar ráðstefnugestir gátu kynnt sér fjölda nýjunga sem nú er verið að bjóða upp á innan velferðarþjónustunnar. Tókst ráðstefnan með ágætum og voru margir þátttakendur, ekki aðeins frá Akureyri og Norðurlandi, – heldur af öllu landinu. Voru málefnalegar umræður um framtíðarverkefni ráðuneyta og velferðarþjónustu. Hafði Þór Garðar Þórarinsson, starfsmaður á skrifstofu velferðarmála ráðuneytisins veg og vanda af ráðstefnunni og hvatti þátttakendur að leggja fram hugmyndir er gætu verið málefninu til framdráttar.
Þar kom sitthvað á óvart. Þarna voru u.þ.b. 20 fyrirtæki, stofnanir, frumkvöðlar og hagsmunasamtök er kynntu ný úrræði og nýjar lausnir á sviði velferðarþjónustu. HEILAHEILL kynnti tölvuforritið LESHEIMUR eftir Maríu Ingu Hannesdóttur, kennara, er sérstaklega er hannað fyrir fólk með málstol.