Laugardaginn 1. október hélt HEILAHEILL sinn reglulega auglýsta félagsfund, fyrsta laugardag hvers mánaðar í húsakynnum félagsins að Sigtúni 42, 105 Reykjavík. Formaðurinn, Þórir Steingrímsson, hélt stutt erindi um stöðu félagsins í dag. Greindi hann frá samevrópsku átaki, er kallast SAP-E. HEILAHEILL tekur þar með þátt í sameiginlegu átaki evrópskrar aðgerðaráætlunar SAP-E, (Stroke Action Plan for Europe), þar sem fagaðilar og sjúklingar í Evrópu taka höndum saman er varðar slagið, byggt á undirrituðu samkomulagi er samtökin ESO (European Stroke Association) og SAFE (Stroke Alliance For Europe) gerðu með sér 2018, þar sem gert er ráð fyrir að hvert land fyrir sig innan samtakanna vinni að ákveðnum markmiðum er varðar heilablóðfallið. Greindi Þórir frá þessum markmiðum. Með þessu samkomulagi er HEILAHEILL formlegur aðili SAP-E og er þegar hafin samvinna við fagaðila hér á landi um það, skv. sérstakri greiningu. Lögð er á það áhersla að einstaklingurinn njóti samræmis hvar sem hann býr! Að þessu erindi loknu sungu og spiluðu mæðginin, þau Albert Ingason og Eva Dögg Albertsdóttir gömul og góð lög við fögnuð fundarmanna. Gæddu fundarmenn sér á kaffi og meðlæti í boði félagsins á meðan dagskránni stóð og var gerður góður rómur að.