Mannvirðing var jólaboðskapur og hugvekja séra Baldurs Kristjánssonar, á jólafundi HEILAHEILLA 8. desember s.l. í Sigtúni 42, Reykjavík. Eftir erindi formannsins, Þóris Steingrímssonar, voru bornar fram margar fyrispurnir, enda nokkur ný andlit á meðal fundarmanna. Reynt var að svara þeim öllum og gerð grein fyrir á hvaða vegferð félagið væri, m.a. eftir heiðursviðurkenninguna er SAFE (Stroke Alliance for Europe) veitti félaginu á aðalfundi samtakanna í Berlín 1. desember s.l., á 100 ára fullveldisafmæli Íslands og kynnt var á fundinum. Eftir hugvekju séra Baldurs, fóru fundarmenn glaðir á braut, eftir að hafa gætt sér á góðu kaffi og því meðlæti sem því fylgdi!