Mín saga sem manns sem hefur fengið heilablóðfall er sjálfsagt ekkert frábrugðin mörgum öðrum. Ég veiktist 28. okt.2002 á Akureyri. Var fluttur til Reykjavíukur í aðgerð þá strax. Man ekkert eftir því ferðalagi hvorki suður eða norður. Man óljóst eftir jólunum á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri. Var síðan sendur í endurhæfingu á Kristnesspítala. Þar notaðist ég við hjólastól, göngugrind og hjólagrind til að bera mig um auk þess að vera í annari þjálfum. Þetta skilaði þeim árangri að ég gat farið heim um mitt ár 2003 en sótt þjálfun áfran. Konan mín sá um að aka mér á milli. Um haustið 2004 gat ég farið út með göngustaf mér til stuðnings. Jafnvægið var lélegt og mátt vantar í vinstri hlið. Ég man enn hvað mér fannst asnalegt, fyrst er ég fór út með stafinn, hvað ÉG væri eiginlega að gera með staf. Svo áttaði ég mig á því að ég væri nú einfaldlega svona núna og ég gæti lítið við því gert. Nú velti ég því ekki fyrir mér að ég sé með skerta hreyfigetu, ég er einfaldlega svona og verð að vinna mig út úr því.
Þetta sama haust 2004 man ég eftir að ég gat þurrkað mér um hendurnar eðlilega það fannst mér merkilegur áfangi. Eins þegar ég gat gengið úti ca 10m staflaus. Þetta er ekki langt en mjög merkur áfangi fyrir mig. Það eru þessi litlu skref eða hlutir sem sitja eftir í huganum og segja manni að þetta muni koma hægt og hægt.
Það er sérstaklega eftirfarandi sem ég vil benda á sem jákvæða reynslu mína og gæti hugsanlegsa hjálpað öðrum. Reyna að vera í góðu skapi. Það er óskaplega erfitt og reynir á allt og alla ef maður er óánægður eða fúll. Það fer verst með mann sjálfan að vera óánægður. Auðvitað koma stundir sem leiði sækir að en þá er að reyna að hugsa jákvætt. Ef maður horfir til baka má maður ekki horfa á gærdaginn. Þá finnst manni ekkert hefa skeð, horfa til baka um viku, mánuð eða lengur. Batinnn kemur í svo litlum skrefum að maður sér þau ekki nema að leggja nokkur saman. Hvernig var ég fyrir mánuði eða lengri tíma. Það að koma til baka úr svona áfalli hefst ekki nema með vinnu,vinnu og aftur vinnu. Þjálfun og annað svo sem hreyfing, t.d. ganga er öllum nauðsyn og er til ánægju. Ég tel það afar nauðsynlegt fyrir alla að reyna að vihalda góðu skapi og jafnvægi. Vont skap og nöldur er vont fyrir alla í kringum mann sem eiga annað skilið en leitt skap og einnig er skapleiði vondur fyrir mann sjálfan. Svona veikindi eru ekki endalok heldur vinna sem maður verður sjálfur að sinna, að leggjast fyrir held að sé það versta sem maður getur gert.
Nú fer ég í æfingar og þjálfun á Hæfingarstöðinni Bjargi á hverjum virkum degi og geng úti alla daga ef veður gefur.
Ævarr Hjartarson
Furulundi 33 Akureyri