Forvarnir til bjargar

Ingibjörg Sigþórsdóttir
Ingibjörg Sigþórsdóttir

Heilablóðföll eru þriðja algengasta dánarorsök á Vesturlöndum, næst á eftir kransæðastíflu og krabbameini. Langalgengast er að lokun verði á slagæð sem veitir blóðflæði til tiltekins svæðis í heila. Þetta gerist í um 85% tilfella, en í um 15% tilfella rofnar æð og veitir blóði út í vef sem veldur heilablóðfalli. Nærri lætur að um sex hundruð Íslendingar fái heilablóðfall á ári hverju með misalvarlegum afleiðingum.

Áhættuþættir heilablóðfalla.Því er bæði nauðsynlegt og mikilvægt fyrir almenning að þekkja einkenni og áhættuþætti heilablóðfalla, sem oft gera ákveðin boð á undan sér. Og lesi eða þekki menn ástand sitt rétt, má með hjálp lækna bjarga mannslífum og koma í veg fyrir alvarlega skaða, bæði líkamlega og andlega, segir Ingibjörg Sigurþórsdóttir, bráðahjúkrunarfræðingur á slysa- og bráðadeild Landspítala – háskólasjúkrahúss. Hún er nú að ljúka diploma-námi sem hjúkrunarfræðideild HÍ býður uppá. Í náminu hefur Ingibjörg tekið saman fróðleik um heilablóðföll sem hún segir að eigi erindi við hvert mannsbarn enda er hún nú að láta útbúa veggspjöld um efnið til að hengja upp á eigin vinnustað og jafnvel víðar. “Mikilvægt er að komast sem fyrst á sjúkrahús til að láta meta hvort um hugsanlegt heilablóðfall er að ræða, finni menn til einkenna, sem geta meðal annars falið í sér skyndilegt rugl eða erfiðleika með tal og skilning; skyndilegan dofa eða lömun í andliti, hendi, fæti eða í öðrum líkamshelmingi; skyndilega erfiðleika með gang, svima, jafnvægisleysi eða skerta samhæfingu hreyfinga og skyndilegan og slæman höfuðverk án þekktra orsaka. Þekktir áhættuþættir Þar sem hjúkrunarfræðingar vinna víða í samfélaginu ættu þeir að vera í lykilaðstöðu við að fræða almenning um þessi einkenni og áhættuþætti.

Heilablóðfall er oft samspil margra þátta
Heilablóðfall er oft samspil margra þátta og er áhættuþáttum gjarnan skipt í tvo flokka, þá sem hægt er að fyrirbyggja og þá sem ekki er hægt að fyrirbyggja, segir Ingibjörg. Samkvæmt Alþjóða heilbrigðisstofnuninni er blóðþrýstingur sem er yfir 160/95 talinn vera háþrýstingur og vilja sumir meina að mörkin séu allt niður í 140/90. Of hár ómeðhöndlaður blóðþrýstingur er áhættuþáttur í myndun æðakölkunar og þykknunar á æðaveggjum og þar með þrengingu æða. Oftast er auðvelt að meðhöndla háþrýsting með lyfjum og breyttum lífsháttum. Þá má drepa í síðustu sígarettunni því reykingar valda æðakölkun og óregla á hjartslætti getur myndað litla blóðtappa í blóðrás sem lokað geta slagæð í heila. Þetta má oft fyrirbyggja með blóðþynningarmeðferð. Offita og sykursýki eru einnig áhættuþættir sem má fyrirbyggja. Þeir áhættuþættir, sem aftur á móti ekki er hægt að fyrirbyggja, er hár aldur, en heilablóðfall er algengast meðal þeirra sem komnir eru yfir miðjan aldur. Kyninu verður sömuleiðis ekki breytt svo glatt, en heilablóðfall er algengara hjá körlum en konum þrátt fyrir að fleiri konur deyi úr sjúkdómnum. Erfðir og það að hafa fengið heilablóðfall áður eykur jafnframt áhættuna. Blóðþrýstingurinn skiptir miklu máli í þessu sambandi og ýmsir þættir geta orsakað háan blóðþrýsting, t.d. streita, og því eru endurteknar mælingar nauðsynlegar til að ganga úr skugga um hvort við viðvarandi vandamál sé að etja eða einangruð tilfelli. “Blóðþrýstingurinn er hins vegar orðinn töluvert hár áður en hann fer að gefa frá sér viðvaranir á borð við vanlíðan og höfuðverk. Ungt fólk með of háan blóðþrýsting er gjarnan einkennalaust og finnst það ekki vera tiltökumál á meðan það er frískt að vera með of háan blóðþrýsting. Leiti þetta fólk sér hins vegar ekki meðferðar hjá lækni, getur blóðþrýstingurinn verið ávísun á fjölmörg vandamál síðar á lífsleiðinni og hreinlega lagt æðakerfið í rúst á nokkrum áratugum. Nær undantekningarlaust er auðvelt að lækka blóðþrýsting með lyfjum, auk þess sem lífsstíllinn skiptir líka máli og hollt líferni svo sem streitulosun, holl hreyfing og mataræði. Kröftug lyfjameðferð Fyrir um áratug kom fram á sjónarsviðið kröftug segaleysandi lyfjameðferð sem hægt er að gefa innan þriggja klukkustunda frá upphafi einkenna heilablóðfalls, en fyrir þann tíma stóð mönnum aðeins til boða  ndurhæfing eftir heilablóðfall, líkt og nú. Lyfjameðferðin hentar ekki öllum og er háð ströngum skilyrðum sem allir verða að uppfylla til að árangur náist. Tilgangurinn með lyfjagjöfinni er að freista þess að opna æðina á ný og í öllum tilfellum hefur taugasérfræðingur síðasta orðið um það hvort lyfið skuli gefið. Eftir heilablóðfall er hvíld mikilvæg og að halda líkamsástandi sjúklingsins stöðugu. Oft er gefin væg blóðþynningarmeðferð.

Endurhæfingin.
Loks tekur endurhæfingin svo við. “Fólk getur fengið nokkur heilablóðföll á sinni ævi. Stundum eru einkenni mjög óskýr og væg. Við þurfum að vera viss um að þekkja einkennin þegar þau láta á sér kræla og bregðast skjótt við.”  Forvarnir til bjargar “Við þurfum að breyta hugsunarhættinum svolítið því við erum alltaf miklu duglegri að meðhöndla en að fyrirbyggja. Það er auðvitað röng forgangsröðun, segir Ingibjörg. “Kjarni málsins er sá að oftast er um samspil margra þátta að ræða, hvort sem litið er til slysa eða veikinda. Við þurfum, hvert okkar, að líta í eigin barm, því með því að bæta líf okkar í formi forvarna, minnkum við líkurnar á veikindum og slysum. Sama hversu stutt er á hátæknisjúkrahúsið, björgum við aldrei nema hluta af þeim, sem lenda í slysum. Forvarnirnar bjarga mun fleirum, segir Ingibjörg Sigurþórsdóttir.

Við þökkum Ingibjörgu Sigþórsdóttur aðstoðar deildarstjóra Slysa- og bráðadeildar Landspítala – háskólasjúkrahúss að fá að birta viðtal við hana  í Morgunblaðinu á þessu ári.

 

Heilaheill notar vafrakökur til að bæta upplifun og greina umferð um vefinn.

Friðhelgisstillingar

Við notum vafrakökur til að skrá upplifun notenda vefsins svo við getum betur komið til móts við þá. Hér getur þú með einföldum hætti haft áhrif á þá virkni.

Vafrakökurnar hér að neðan eru nauðsynlegar svo vefurinn starfi eðlilega.

Þessi vafrakaka vistar stillingar notandans varðandi samþykki á vafrakökum á heilaheill.is
  • CookieConsent

Þessar kökur eru hluti af WordPress kerfinu.

  • wordpress_test_cookie
  • wordpress_logged_in_
  • wordpress_sec

Hafna öllum vafrakökum
Samþykkja allar vafrakökur